Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

BB fær FF í einkunn

Þegar maður skoðar ástand réttarkerfisins eftir viðskil Björns Bjarnasonar þá sést að þar fór óhæfur maður með málaflokk sem hann hafði ekki hundsvit á. 

Efnahagsbrotadeild var bæði fjársvelt og vanmönnuð og Baugsmálið tók alla þeirra orku og vit árum saman. Á meðan var fátt annað rannsakað og ótöldum kærendum vísað frá og ráðlagt að fara í einkamál. Gott fyrir BB enda staðfesting á að Ísland væri sannanlega óspilltasta land í heimi.

Enginn lærdómur var dreginn af erlendri baráttu við hvítflipaglæpi, peningaþvott, hlutabréfasvik, og annað mein sem hlaut að fylgja útrásinni og bankavextinum. Núna er það viðurkennd staðreynd að Ísland var frjósamur jarðvegur fyrir allt þetta og meira til. Skyldi yfirmaður dómsmála í landinu ekki hafa pælt í þessum málaflokk? Var hann vanhæfur eða var honum bara sama? 

Hvað með endurmenntun dómara sem enga reynslu höfðu af flóknum skatta- eða auðgunarglæpum sem hlutu að fara vaxandi eins og þjóðfélagið var að breytast? Öll slík mál eru ómenntuðum dómurum prófmál ef þau þá komast frá rannsóknarstigi yfir á dómstigið yfirleitt. 

Æ, hvernig læt ég? Meðan ekkert var rannsakað þá var náttúrulega engin þörf á að saksækja eða dæma fjárglæframenn. Málið leyst með BB aðferðinni og Ísland áfram óspilltasta land í heimi.

Já, það er hægt að spara stórt í fangelsismálum með því að halda rannsóknar og réttarkerfinu í skefjum. Þá virkar líka allt svo hreint og fellt og dómsmálaráðherrann lítur vel út. Ný og endurbætt fangelsi komast ekki einu sinni á teikniborðið nema sem glasamotta undir kaffibolla þegar BB lét sig dreyma um að stofna íslenskan her eða eitthvað álíka ga-ga. 

Kveikjan að þessu bloggi var einmitt frétt á ruv.is sem staðfestir fyrirhyggjuleysi BB í fangelsismálum.

Það er gott að vera vitur eftirá. Vanhæfni BB er eins og rauður þráður í gegnum útrásarsöguna og bankahrunið og aðgerðaleysið hróplegt.  Við sjáum það best í samanburði við núverandi dómsmálaráðherra virðist koma meiru í verk í hverri vinnuviku en BB tókst á heilu kjörtímabili. Vonandi fær hún að vinnufrið frá pólitíkusum í nokkur misseri í viðbót.


Verklagsreglum Davíðs haldið til "Haga"

Vandamál þjóðarinnar virðist nú sem fyrr eiga uppruna sinn í verklagsreglum og villuráfandi siðferðiskompás þeirra sem stjórna. Davíð gat farið framhjá heilbrigðri skynsemi, nefndum og ráðum þegar hann úthlutaði gömlu ríkisbönkunum til "réttra manna"  í denn. Þeir sem stjórna "björgunaraðgerðum" bankanna og atvinnulífsins nú nota sömu verklagsreglur. Aftur er verið að tryggja að réttir menn fái verðmætin á silfurfati.

Einhver vitur maður (eða var það kona) sagði að lýðræðisþjóðir fengu ávallt þá stjórn sem þær eiga skilið. Kjósendur settu Dabba og kó í þá aðstöðu að þeim tókst eftirlits- og athugasemdalaust að "einkavinavæða" bankakerfið. Nú höfum við kosið yfir okkur ríkisstjórn sem setur björgunarliði efnahagslífsins sömu verkreglur. Nú á aftur að útbýta þjóðarverðmætum eftir pólitískri forskrift kunningjasamfélagsins og sömu stikkorð eru höfð á lofti: traust, reynsla, góðir stjórnendur...

En ef almenningur vill sameinast um kaup á Högum þá er fyrirtækið einfaldlega ekki til sölu. Sem sagt, sama sagan og þegar Landsbanki og Búnaðarbanki voru seldir.

Hefur ekkert breyst? Höfum við ekkert lært? Forsendurnar fyrir "einkavinavæðingunni" að þessu sinni eru, skv mbl.is; "...vísuðu stjórnendur bankans í verklagsreglur, þar sem segir að að áframhaldandi þátttaka eigenda og stjórnenda byggist á því að þeir njóti trausts og þyki mikilvægir fyrir framtíð fyrirtækisins." 

Þeir sem treysta Baugsklíkunni, vinsamlega réttið upp hönd! Skoðið svo bloggfærslu Jóns Geralds Sullenbergers og nýjasta myndbandið hans. Það er fróðlegt innskot í þessu samhengi.

- - - 

PS. Nú er að sjá hvort þessi færsla fær að standa eða hvort henni verður fyrirkomið í skúmaskoti bloggheima þegar sjálfur ritsjóri Morgunblaðsins er hér nafngreindur sem höfundur hinna síðari móðuharðinda. 

 


mbl.is Hlutur í Högum ekki til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó nei, góurinn, ekki aldeilis...

Þó glitti í sannleikskorn innan um undanslátt og beinar lygar þá þýðir ekki fyrir nýkjörinn formann að segja sisona: "...allt sé komið fram í styrkjamálinu, sem máli skiptir fyrir flokksmenn."  Hvað gerðu þessir "flokksmenn" fyrir þau fyrirtæki sem styrktu flokkinn? Það er ókannaður spillingarakur og skiptir máli fyrir okkur hin sem ekki eru flokksmenn Sjálfstæðisflokksins.

Kaup á pólitíkusum er daglegt brauð í útlöndunum stóru. Það hefur líka verið lenska á Íslandi en aldrei fengist upp á yfirborðið. Oft þegar slík mál hafa náð í fréttirnar hafa menn eins og Bjarni getað settlað málin með yfirlýsingum eins og þessari. Það er ekki nema pólitískar ofsóknir hafi verið með í dæminu eins og þegar Guðmundur Jaki og Guðmundur Árni fengu "makleg málagjöld" í denn.

Nú stendur íslenskur stjórnmálaflokkur frammi fyrir því að hreinsa til í eigin röðum og þá er erfiðara um vik. Nú verða leiðtogarnir að benda á samherjana en ekki menn í öðrum flokkum. Þá þarf sterka siðferðiskennd og kjark, meiri kjark en Bjarni hefur sýnt til þessa:  Skoða hvaða sjálfstæðismenn í borgarstjórn og ríkisstjórn tóku ákvarðanir sem snertu hagsmuni styrktarfyrirtækjanna og fyrirtækja í þeirra eigu og skoða tengsl þeirra við þá sem sátu við reiknivélarnar á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins. Voru tengsl þar í milli eða ekki? Þorir Bjarni eða þorir hann ekki? 


mbl.is Allt komið fram sem máli skiptir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt Ísland - eða bara andlitslyftingu?

Kosningar eru góð hugmynd en nú þarf að breyta forsendunum svo kerfið virki. Markmiðið er NÝTT ÍSLAND. Markmiðið er ekki að kjósa nýja menn til að sitja við sömu gömlu spillingarjötuna.

Kjósum stjórnlagaþing til eins árs sem endurskoðar innviði íslenska stjórnkerfisins og tekur kerfi annarra landa til fyrirmyndar. Fá umræðu í gang í þjóðfélaingu um breytingar. Nóg er af vítum að varast og nú þurfa stjórnmálamenn að hlusta. Markmiðið er að breyta þessu rotna eftirlitslausa stjórnkerfi sem kom okkur í núverandi vandræði. Það stjórnlagaþing myndar þjóðstjórn allra flokka.

En hvernig á svo að byrja verkefnið? Jú, númer eitt er að breyta stjórnarskránni úr "danskri þýðingu" yfir í íslenska stjórnarskrá og sækja það besta úr stjórnarskrám þeirra þjóða sem við viljum líkjast. Við erum ekki lengur dönsk nýlenda.

Fækka þingmönnum, gera landið að einu kjördæmi. Við erum öll íslendingar.

Banna með lögum að innanflokks hreppapólitík og valdapot ráði því hvort "þingmaður" fær að stjórna viðskiptamálum þjóðarinnar, umhverfismálum, dómsmálum, menntamálum. Skylda stjórnmálaflokka sem fara í ríkisstjórnarsamstarf til að ráða "fagfólk" í ráðherrastöður. 

Framboð á ekki að vera miði í biðröðina til að gerast ráðherra. Við þurfum ekki fleiri egóista sem sitja fyrir framan spegilinn og æfa kokkteilræður - við þurfum fólk sem vill vinna þjóðinni gagn.

Lögbinda hvaða skilyrði embættismenn þurfa að uppfylla svo hæfileikar, menntun og reynsla verði metin hærra en ættartengsl, pólitísk hrossakaup eða laun fyrir gamla "greiða".

Ekki lækka laun þingmanna og ráðherra. Þá fáum við bæði lélega lagasmiði og framkvæmdamenn. Með færri þingmönnum getum við boðið hærri laun til þeirra sem einstaklinga. Það á ekki að vera fórn að fara í pólitík eða forréttindi þeirra sem geta lifað af eignum sínum. Það á að borga þingmönnum svo vel að þeir hafi engar freistingar umfram þær að vinna vinnuna sína. Skoðum feril Finns Ingólfssonar til að sjá hvað ber að varast.

Ef þingmaður verður ráðherra þá á hann að segja þingsæti sínu lausu. Öðru máli gildir um forsætisráðherra sem yrði samkvæmt lögum að halda sínu þingsæti. Forsætisráðherra er verkstjórinn. Hann verður að vera allt í öllu milli þings og fagráðherra.

Banna að þingmenn fari með fjármál fyrir nefndir og ráð. Ekki láta sendibílstjóra Þjóðleikhússins koma í stað fyrir lögbundið eftirlit með framkvæmdanefndum - og setja lög sem koma í veg fyrir að dæmdir klúbbmeðlimir flokkanna fái sakaruppgjöf í skjóli nætur í fjarveru forseta sem ekki vill beygja sig og bukta fyrir forsætisráðherra.

Efla efnahagsbrotadeild lögreglunnar svo það sé til einhvers að kæra og brotamenn óttist að þurfa að standa skil gerða sinna. Halda málaskrá yfir allar kærur sem þeir taka að sér og/eða vísa frá og gera hana aðgengilega á netinu (efnislega, ekki atriðalega) og birta þar einnig hvað mörg mál eru í gangi, hvar þau eru í kerfinu og hvenær sé væntanleg niðurstaða. Einnig skrá þegar málum er vísað aftur til rannsóknar og láta embættið útskýra af hverju slíkt gerist. Það er aðhald og gegnsæi sem vantar og þannig er komið í veg fyrir spillingu. 

Auglýsa embætti lögreglustjóra, saksóknara og forstjóra fjármálaeftirlits og láta þingið ráða þá og gefa þeim fjármálaramma til að vinna eftir. Færa þessa embættismenn nær þjóðinni og leyfa þjóðinni að fylgjast með bæði ráðningunni og embættisverkum þeirra. Með nýjum ráðningareglum eru lögreglustjórar ekki lengur jámenn háðir dutlungum dómsmálaráðherra og hann getur ekki breytt kerfinu til að losna við menn sem dansa ekki eftir hans flautu. Jafnvel má kjósa suma embættismenn á landsvísu, t.d. ríkissaksóknara eða ríkislögreglustjóra?  Þá er allur klíkuskapur úr sögunni og þjóðin ræður.

Á Nýja Íslandi hætta ráðuneyti að vera flokksráðuneyti og fara að vera fagráðuneyti. Þá skiptir ekki máli lengur hvort Geir fái þetta ráðuneyti eða Björgvin hitt ráðuneytið. Einum flokki er ekki lengur akkur í að fá ákveðið ráðuneyti svo hægt sé að vinna t.d. byggðastefnu eftir framsóknaráherslum. Sjóndeildarhringur stjórnkerfisins víkkar og áherslurnar breytast öllum íslendingum í hag.

Sem sagt búa til stjórnkerfi sem er heiðarlegt, skilvirkt og vinnur gegn frændsemisáráttu og einkavinavæðingarduld núverandi kerfis. Með nýju gagnsæju stjórnkerfi visna rætur spillingar og lýðræðið blómstrar!

En skyldu atvinnupólitíkusar setja sína hagsmuni í fyrsta sæti eða eru þeir með hagsmuni nýja Íslands í hjarta? Vilja þeir byggja nýtt stjórnkerfi - eða sýndarlausn svo allt líti vel út á yfirborðinu? Þannig vinnubrögð gerðu þjóðina að spillingarbæli og ef atvinnupólitíkusar skilja það ekki þá eiga þeir ekkert erindi í stjórnmál.

Jón Ármann Steinsson      

(p.s. afsakið prentvillurnar, þetta var skrifað í flýti á kaffihúsi í Los Angeles)

www.s.is     jon@s.is


mbl.is „Eigum ekki að óttast þjóðina“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spara aurinn, kasta mannauðnum

Þegar grundvöllur tilverunnar breytist snöggt koma upp allskonar spurningar hjá fólki sem áður bara lifði lífinu frá degi til dags. Þegar bankahrunið varð fylltust gjörgæsludeildir spítalanna af fólki sem þurfti áfallahjálp. Hvort sem breytingarnar verða á einni nóttu eða einu misseri þá þarf fólk hjálp. Það er óskiljanlegt að yfirvöld skulu ekki sjá að það þarf að auka fjármagn til heilsugeirans en ekki skera niður. Hvaða bírókrata-snillingur fékk þá hugmynd að hér ætti að spara?

Breyttur hagur til hins verra getur breytt sjálfsmynd manna - sektarkennd, reiði, uppgjöf, þunglyndi, allt eru þetta eðlilegar tilfinningar sem fólk þarf að vinna úr. Stundum er núverandi starf, eignir, æfistarfið eða framtíðaráætlanir okkar ramminn utanum sjálfið.

Hvað ef sjálfsmynd manns/konu er nátengt veraldlegum eigum og svo eru eignirnar teknar? Værir þú sem þetta lest minni maður ef bankinn tæki húsið þitt og bílinn þinn og kannski fyrirtækið þitt líka - og allir vissu af því? Væri eitt af þessu nóg til að þú endurskoðaðir sjálfsmynd þina og mun þér þá líka það sem þú sérð? Ég hef verið að skoða þessi atriði varðandi sjálfan mig og þó hef ég ekki mikið undir í þessu fjármálafári.

Sparnaður nú í geðheilbrigðisgeiranum á eftir að kosta margfalt meira seinna - síðast en ekki síst hjá öllum börnunum sem upplifa ráðleysi og örvæntingu foreldra sinna.

Já, ég veit að ég mála svarta mynd en...


mbl.is Mótmæla breytingum harðlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausn vandans er einföld

Palestínuvandamáiið er flókið en lausnin er einföld. Þjóðin þarf að vera frjáls, sjálfstæð og jafningi annarra þjóða á alþjóðavettvangi. (Þá væri þetta sem nú er aðgerast "stríð" en ekki Ísraelsk hernaðaraðgerð gegn hryðjuverkamönnum og nánast innanlandsvandamál) Alþjóðasamfélagið verður að draga af sér slyðruorðið og taka yfir landamæravörslu og lögregluvald á Gaza meðan verið er að koma á friði bæði innan Palestínusvæða og við nágranann Ísrael. Þá fyrst geta milljónir Palestínumanna sem búa í flóttamannabúðum snúið heim. Gaza er bara áminning um sundraða og landlausa þjóð.

Friðarferli er að mínu mati ekki mögulegt nema með utanaðkomandi valdboði, t.d. frá SÞ (sem að mínu mati er tannlaus brauðrisi) sem er því miður ófær um svona aðgerð - getur bara sett plástur á meiddið en ekki læknað sjúkdóma. Báðir deiluaðilar eru fastir í hringrás hefndarvíga og tortryggni. Áratuga voðaverk á báða bóga hafa gert þá óhæfa til að sjá málstað hvors annars eða finna flöt á sameiginlegu existens.

Samlíkingin við "lokalausn" nasista á "Gyðingavandamálinu" er orðin eins og spegilmynd af hvernig Ísraelsmenn virðast ætla að "leysa Palestínuvandamálið". Palestínumenn á Gaza og gyðingar í gettóinu í Varsjá með nasistana við gaddavírsgirðingarnar er óþægilega lík mynd.

 


mbl.is Vill rannsókn á árásunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýr væri Hafliði allur

Bandaríska kerfið er byggt þannig upp að það er eitthvað í húfi fyrir þig ef þú brýtur á náunga þínum. Þú þarft að borga og þess vegna passar þú þig. Þetta er af hinu góða. 

Á Íslandi er þetta þveröfug enda bæturnar alltaf smáaurar. Ef þú slasast, hlýtur örorku, eða þaðan af verra - hvað eru bæturnar? Formúlan er flókin. Spyrjum tryggingafélögin því þau voru "kjölfestu hagsmunaaðilinn" sem samþykkti lögin áður en alþingi samþykkti þau í denn. Já, greiðendur bótanna smíðuðu lögin, skv blaðafréttum á þeim tíma. Týpískt íslenskt framsóknarhugarfar - tryggingafélögin þurftu jú að borga ef til kæmi. Lögin höfðu áhrif á rekstrarafkomu þeirra. Fullkomlega eðlilegt að þau kæmu að málinu.

Ég fullyrði að Ísland er með lægstu bætur í samanburði við EU og BNA þó ég hafi ekki kannað það sérstaklega til að hafa tölur a hraðbergi. En málið á sér annan flöt sem hindrar möguleika fólks til að leita réttar síns. Ef það er brotið á þér og þú ferð í mál þá þarft þú sjálfur að leggja út lögfræðikostnað og ef þú vinnur málið þá er ólíklegt að rétturinn dæmi þér raunveruleg lögfræðiútgjöld - burtséð frá sjálfum bótunum. Lögfræðikostnaður á Íslandi er hár. Það gæti t.d. kostað þig milljón í lögfræðikostnað að sækja hálfa milljón í bætur. 

Semsagt, áhættan er öll þín megin og af því bæturnar eru svo lágar og fyrst bótalöggjöfin er skrípó þá vill enginn lögmaður taka að sér mál nema fá greitt fyrirfram. Í BNA taka þeir áhættuna með fórnarlambinu. Það er enn ein ástæða fyrir stórfyrirtæki að passa sig og brjóta ekki á litla manninum.

Semsagt, á Íslandi verndar kerfið þann sem brýtur á náunganum. Sorgleg staðreynd, en þetta er nú svona samt.


mbl.is 25 milljónir í bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæði erfðastríð og trúarbragðastríð

Þetta sem er að gerast á Gaza nú er bara ein orusta en stríðið á upphaf sitt á tímum gamla testamentisins. Núverandi ástand er afleiðing þess að gömlu nýlenduveldin og heimsbyggðin öll fengu samviskubit eftir helför nasista. Það varð að finna lausn á "gyðingavandamálinu" sem varð til þess að Ísraelsríki var stofnað - og þar byrjaði nýr kafli í stríði Kains og Abels, sem er athyglisverð kenning og ég hef ekki hundsvit á því hvort hún sé algjört bull eða lausn lífsgátunnar. En þeir sem aðhyllast þessa kenningu halda því fram að þetta erfðastríð leiði á endanum til "Armageddon".

And we think we've got problems...


mbl.is Æfðu innrásina í átján mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

skýr skilaboð segir Ingibjörg? Ekki þó til okkar?

Er Ingibjörg að halda því fram að þjóðin hafi nú loksins fengið að vita allan sannleikann?

Ég held að ríkisstjórn Geirs skilji ekki að þetta IceSave/IMF mál er ekki einhver bírókratasamningur um veiðiheimildir. Þeir eru að semja um framtíð þjóðarinnar og kjósa að gera það með leynimakki og villu upplýsingaveitu til umbjóðenda sinna - þ.e. þjóðarinnar? Af hverju? Og þegar við mótmælum sundurrotnum aðdraganda núverandi ástands og ráðaleysinu í kjölfarið þá kemur upp fyrirlitningartónn í forsætisráðherra og hann segir sem svo; "já, já, þeir mega svo sem mótmæla...." (umorðun, en þetta eru skilaboðin)  

Treystum við þessari ríkisstjórn í þeim ólgusjó sem framundan er? Skoðum stöðuna: Þetta IceSave mál er bara einn fyrsti kapítullinn í langri sögu. Það eiga fleiri mál eftir að koma upp á yfirborðið sem kalla á afskipti stjórnvalda: Ríkisábyrgðir, Lífeyrissjóðsmál, Seðlabankamál, Fjármálamisferli einstaklinga og stofnana, hlutabréfakaup stjórnmálamanna í einkavæðingarferlinu, komandi stöðuveitingar og svo fjárveitingar til rannsóknaraðila (því nóg verður til að rannsaka), samspil íslenskra laga og EES samningsins (sem IceSave málið tapaðist á), gengismál og leikaraskapur bankanna með gengi krónunnar fyrir ársfjórðungsuppgjör (hvað segir EES samn um það, og ráða þá íslensk lög eða?).

Listinn er endalaus því við erum bara rétt búin að sjá yfirborðið.

Ef Geir og kó verða við sjórnvölinn, munu þeir halda áfram að segja þjóðinni ósatt og gera lítið úr okkur sem höfum áhyggjur af ástandinu? 

 

 

 

 


mbl.is Skilaboðin voru skýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...já, en Geir bað um vinnufrið?

Kosningar eru eina vonin. Tvö megin einkenni þessarar ríkisstjórnar eru; hún er í engum tengslum við fólkið í landinu og hún telur sig ekki bera neina ábyrgð. Kosningar myndu leiðrétta það. En Geir vill sitja áfram yfir kálinu.

Um daginn bað Geir Haarde þjóðina um vinnufrið til að vinna okkur út úr vandanum. Til hvers þarf Geir vinnufrið? Hann hafði vinnufrið til að koma í veg fyrir þessa katastrófu og gerði ekkert. Þannig varð vandinn til. Geir og kó sváfu í vinnunni.

Hvar í heiminum getur pólitíkus sem klúðrar starfi sínu leyft sér að biðja um vinnufrið og traust að laga skaðann eftir sig - í stað þess að taka ábyrgð á gerðum sínum, segja af sér og hleypa hæfari mönnum að? Jú, á Íslandi. Þar ber enginn ábyrgð. Hvorki á orðum sínum né gerðum.

Hér er nærtækt dæmi: Einn daginn getur Geir Haarde sagt að IMF setji engin skilyrði fyrir láni og við trúum honum og vörpum öndinni léttar. Svo skilur enginn af hverju ekkert gengur að fá lánið. Síðan þegar Geir verður uppvís að ósannindunum og í ljós kemur að IMF setur heldur betur skilyrðin, afarkosti öllu heldur - þá er það bara allt í fína lagi. 

Vill einhver taka að sér að skilgreina hvenær stjórnmálamaður segir ósatt og hvenær hann er svo úr tengslum við starfið sitt að svona "misskilningur" getur talist eðlilegur? Í framhaldi má spyrja hvort sá sami stjórnmálamaður sé hæfur til að stýra okkur út úr vandanum þegar hann veit ekki hvað er í gangi? Við skulum ekki gleyma að þessi sami stjórnmálamaður var við stjórnvölinn þegar vandinn var búinn til? Eða var það Davíð? Ég ruglast stundum...

Hver ber ábyrgð á að þjóðin stendur frammi fyrir versta efnahagsáfalli í Íslandssögunni - eða eru menn svo barnalegir að halda að stjórnvöld séu ábyrgðarlaus? Skoðið hagtölurnar. Lánahlutföllin. Gengisákvarðanir. Kaup Seðlabanka á veðbréfum. Ábyrgðirnar. Voru Geir og kó bara að æfa lögreglukórinn?

Nú hefur Geir svarað ótal mikilvægum spurningum undanfarnar vikur og við eigum að taka svörin trúanleg. Enda á þjóðin að geta treyst því sem forsætisráðherra segir. Þangað til við stöndum hann að ósannindum. Héðan í frá verðum við að sannreyna allt sem Geir segir með heimildum frá þriðja aðila? 

Nú biður Geir um frið til að vinna áfram að lausn vandans. Hvort eigum við að gefa Geir og kó vinnufrið - eða eigum við að gefa Geir og kó endanlega frí úr vinnunni? 


mbl.is Vilja kosningar í upphafi nýs árs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband