"Win-win" valkosturinn

Maður hefur heyrt svo margar "óspillingarsögur" og "hvítþvottafréttir" úr munni íslenskra embættismanna að það jaðrar við faraldur. Nýjasta nýtt er þessi frétt þar sem utanríkisráðuneytið heldur því fram að íselnsk viðskiptalöggjöf sé í samræmi við EES og heimsbyggðinni til fyrirmyndar. Hvaða máli skiptir það þegar eftirfylgnin er engin?

Þegar stjórnkerfið í heild sinni, Fjármálaeftirlitið, Seðlabanki, efnahagsbrotadeild lögreglunnar, etc., eru sannfærðir um að það sé engin spilling á Íslandi - og skirrast við að láta rannsaka spillingu af því hún er ekki til - þá skapast aðstæður eins og giltu á Íslandi fram að bankahruninu. M.ö.o. Ísland er og verður áfram óspilltasta land í heimi.

Hvernig höfum við sannfærst um að Ísland væri óspillt land?

1. Jú, ef efhahagsbrotadeild hafnar nánast átomatískt kærum enda fjárvana og bara með 13 starfsmenn.  Mér hefur virst að helstu viðbrögð deildarinnar séu að segja fólki að höfða bara einkamál sem er aðferð til að losna undan rannsóknarkvöð.

2. Sú staðreynd að réttarkerfið sendir nánast öll stærri mál aftur til rannsóknaraðila útaf fúski efnahagsbrotadeildar verður til þess að fá mál klárast eins og lagt var af stað með þau í upphafi og eftir sitja smáatriði, oft 5-10% af upprunalega sakarefninu. Sem sagt, lítil spilling með sannalegum hætti.

Svo má vísa í kannanir sem sýna hversu óspillt Ísland er. Ein helsta könnunin kom okkur efst á lista yfir óspilltustu ríki heims og viðhélt sjálfsblekkingunni fram að bankahruni og jafnvel lengur hjá þeim sem enga sjálfsrýni hafa. Umrædd könnun var framkvæmd meðal íslenskra embættismanna. Þetta voru alls 12 spurningar, minnir mig, en þar af pössuðu bara 7 við íslenskar aðstæður og því var hinum 5 sleppt. Af þeim 7 sem eftir stóðu voru 6 um mútugreiðslur til íslenskra embættismanna (ekki frændsemisgreiða eða pólitíska einkavinavæðingu, nota bene) og íslensku embættismennirnir svöruðu þeim spurningum neitandi. Síðasta spurningin var annars eðlis og jákvæð svör fengust hjá embættismannaúrtakinu líka þar. Einkun Íslands var A plús og við gátum hrósað hvort öðru fyrir að búa í óspilltasta landi heims.

Nú vita allir að fémútur til embættismanna eru fátíðar á Íslandi og þá getur fólk sagt sér sjálft hversu marktæk þessi könnun var. En vá hvað hún er góð landkynning!

Nú bera embættismenn utanríkisráðuneytis enn eina sjálfsblekkinguna á borð fyrir landsmenn. Enn er verið að hamra á því að Ísland sé sannanlega óspilltasta land í heimi. Hinn kosturinn er óhugsandi enda sjálfsmynd kerfisins og traust heimsbyggðarinnar í húfi. Áframhaldandi sjálfsblekking er svokallaður "win-win" valkostur fyrir þjóð sem þorir ekki að horfast í augu við sannleikann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband