BB fær FF í einkunn

Þegar maður skoðar ástand réttarkerfisins eftir viðskil Björns Bjarnasonar þá sést að þar fór óhæfur maður með málaflokk sem hann hafði ekki hundsvit á. 

Efnahagsbrotadeild var bæði fjársvelt og vanmönnuð og Baugsmálið tók alla þeirra orku og vit árum saman. Á meðan var fátt annað rannsakað og ótöldum kærendum vísað frá og ráðlagt að fara í einkamál. Gott fyrir BB enda staðfesting á að Ísland væri sannanlega óspilltasta land í heimi.

Enginn lærdómur var dreginn af erlendri baráttu við hvítflipaglæpi, peningaþvott, hlutabréfasvik, og annað mein sem hlaut að fylgja útrásinni og bankavextinum. Núna er það viðurkennd staðreynd að Ísland var frjósamur jarðvegur fyrir allt þetta og meira til. Skyldi yfirmaður dómsmála í landinu ekki hafa pælt í þessum málaflokk? Var hann vanhæfur eða var honum bara sama? 

Hvað með endurmenntun dómara sem enga reynslu höfðu af flóknum skatta- eða auðgunarglæpum sem hlutu að fara vaxandi eins og þjóðfélagið var að breytast? Öll slík mál eru ómenntuðum dómurum prófmál ef þau þá komast frá rannsóknarstigi yfir á dómstigið yfirleitt. 

Æ, hvernig læt ég? Meðan ekkert var rannsakað þá var náttúrulega engin þörf á að saksækja eða dæma fjárglæframenn. Málið leyst með BB aðferðinni og Ísland áfram óspilltasta land í heimi.

Já, það er hægt að spara stórt í fangelsismálum með því að halda rannsóknar og réttarkerfinu í skefjum. Þá virkar líka allt svo hreint og fellt og dómsmálaráðherrann lítur vel út. Ný og endurbætt fangelsi komast ekki einu sinni á teikniborðið nema sem glasamotta undir kaffibolla þegar BB lét sig dreyma um að stofna íslenskan her eða eitthvað álíka ga-ga. 

Kveikjan að þessu bloggi var einmitt frétt á ruv.is sem staðfestir fyrirhyggjuleysi BB í fangelsismálum.

Það er gott að vera vitur eftirá. Vanhæfni BB er eins og rauður þráður í gegnum útrásarsöguna og bankahrunið og aðgerðaleysið hróplegt.  Við sjáum það best í samanburði við núverandi dómsmálaráðherra virðist koma meiru í verk í hverri vinnuviku en BB tókst á heilu kjörtímabili. Vonandi fær hún að vinnufrið frá pólitíkusum í nokkur misseri í viðbót.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband