RÚV: O-há-effið sem er "ekki-ríkisstofnun"

Nú vælir og skælir menningarelítan af því RÚV neyðist til að skera niður þjónustuna við landsmenn. Orðið þjónusta orkar tvímælis þegar menn eiga ekki val heldur neyðast til að borga útvarpsgjald hvort sem þeir nota “þjónustuna” eða ekki.

Í stíl við orðaleiki stjórnmálamanna þá heitir skatturinn nú "útvarpsgjald" og telst hvorki vera skattur né afnotagjald samkvæmt lögum.

Þvílíkur léttir. Nóg er til af skattstofnum þó ekki bætist útvarpsskattur við...

Burtséð frá skilgreiningaleiknum þá er "útvarpsgjaldið" glórulaus nefskattur, en þjóðin er löngu blind fyrir rökleysunni og kyssir vöndinn á hverju ári. Þrátt fyrir O-há-effið þá hagar RÚV sér eins og ríkisstofnun, og er ríkisstofnun. O-há-effið er bare einn orðaleikurinn í viðbót.

Af hverju er verið að halda upp á ríkisbákn sem getur aldrei staðið undir sér nema með skattheimtu og aukafjárveitingum? Er einhvers að sakna ef stofnunin yrði lögð niður og einingarnar seldar til einkaaðila? Mér er alveg sama hvað forsjárhyggjupakkið og menningarelítan segir – RÚVlausri þjóð er alveg treystandi til að efla íslenska menningu.

Með því að nota hluta af sparnaðinum sem fæst við að leggja niður RÚV má hlúa að og styrkja innlenda dagskrárgerð í gegnum Kvikmyndastofnun Íslands. Þá lækkar söluverðið á innlendu efni og fleiri fjölmiðlar geta keypt. Núverandi kerfi er fáokun og dragbítur á dagskrárframleiðslu. Það veit hver einasti framleiðandi sjónvarpsefnis og kvikmynda að RÚV er erfiður kaupandi sem nýtir samningsaðstöðu sína til hins ýtrasta.

Varðandi skattinn sem er ekki skattur: Hér er opinber skýring á útvarpsgjaldi versus afnotagjald sbr vefsíðu ruv.is en HÁSTAFIR ERU MÍNIR til að leggja áherslu á rökleysuna:

                            "Afnotagjöldin LÖGÐ NIÐUR

Samkvæmt lögum nr. 6/2007 var ákveðið að LEGGJA AFNOTAGJALD RÍKISÚTVARPSINS NIÐUR frá og með 1. janúar 2009.

Í STAÐ AFNOTAGJALDSINS komi sérstakt GJALD sem Alþingi ákveður.

Alþingi hefur ákveðið að ÚTVARPSGJALDIÐ verði 17.200 kr. og verði einn gjalddagi 1. ágúst ár hvert.

Gjaldið GREIÐA ALLIR þeir sem greiða í Framkvæmdasjóð aldraðra en ÞAÐ ERU ALLIR SEM ERU ELDRI EN 16 ára og YNGRI EN 70 ára og eru yfir skattleysismörkum. Einnig ALLIR LÖGAÐILAR.

Öllum sem skulda enn afnotagjald hefur verið sent bréf og greiðsluseðill, þar sem skorað er á viðkomandi að greiða skuld sína eða semja um hana við starfsmenn afnotadeildar fyrir 15. mars 2009 en eftir það verður krafan send til INNHEIMTU HJÁ LÖGFRÆÐINGUM sem hefur í för með sér aukinn kostnað."

...og hana nú!


mbl.is Eðlisbreyting á starfsemi RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband