Sjálfbær bankastarfsemi á Íslandi - er þetta brandari?

Úr greininni: "Verðlaunahafarnir þrír hafa ákveðið að ánafna þriðjungi verðlaunanna til verkefna, sem geta stuðlað að sjálfbærri og félagslega ábyrgri bankastarfsemi á Íslandi." (ath: þessir verðlaunahafar eru erlendir bankar)

Hvað er sjálfbær bankastarfsemi? Jú, það er verslun með krónur. Skoðum þá varninginn aðeins nánar.

Einhver gáfumaður sagði í sjónvarpinu um daginn að það væru tveir gjaldmiðlar í þessu landi: Krónan sem fólk vinnur fyrir með harðri hendi til lífsbaráttunnar. Þetta er veikur og lasburða gjaldmiðill. Hin króna er sú sem fjármagnseigendur eiga og er verðtryggð og sterk.

Sem sagt, nú ætla útlendingar að verðlauna verðtryggða krónuverslun. Verði þeim að góðu!


mbl.is Hluta verðlauna ánafnað til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þetta ekki fokking djók???????????????

magnús steinar (IP-tala skráð) 2.11.2010 kl. 20:46

2 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Væri nú ekki nær að þeir opnuðu frekar útibú...?

Haraldur Rafn Ingvason, 2.11.2010 kl. 20:59

3 identicon

Ég held að það sé akkurat það sem fréttamaðurinn er að reyna að segja,,,, en fréttirnar eru stundum svo illa skrifaðar, eða misskildar af ritara  

Kannski var hann að reyna að segja að þeir ætluðu að nota peninginn í að opna útibú hér...

anna (IP-tala skráð) 2.11.2010 kl. 21:39

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jón Ármann: Sjálfbær bankastarfsemi er allt annað og meira en bara verslun með krónur. Gömlu bankarnir þrír versluðu allir með krónur, en það var samt alls ekki sjálfbær starfsemi. Í sjálfbærum viðskiptum eru það heldur ekki peningar sem eru aðalatriðið heldur sköpun raunverðmæta fyrir samfélagið, en peningar eru í sjálfu sér ekki raunverðmæti, sjálfbært og stöðugt þjóðfélag þar sem fólk hefur nóg í sig og á er hinsvegar afskaplega verðmætt og heldur gildi sínu alveg sama hvað þú prentar mikið af fagurlituðum pappírsmiðum.

Ég vil svo nota tækifærið og benda þér á verkefni sem getur einmitt stuðlað að sjálfbærri og félagslega ábyrgri bankastarfsemi á Íslandi:

Icelandic Financial Reform Initiative (IFRI.is)

Ég tilheyri sjálfur IFRI hópnum og við munum hitta fulltrúa þessara banka á meðan þeir eru hér á landinu. Ég skal gæta þess sérstaklega fyrir þig að benda þeim á óréttlætið sem felst í verðtryggingunni og hvetja þau til að styðja ekkert sem felur í sér slíkt óréttlæti. Af máli þeirra að dæma er ég viss um að þau taka ábendingunni vel, enda virðist þetta vera skynsamt fólk.

Og varðandi gjaldmiðlana tvo, þá sagði Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra á fundi hjá VG í Reykjavík um skuldavanda heimilanna þann 14. október síðastliðinn, að verðtryggða krónan væri einfaldlega allt annar gjaldmiðill. Sem er í reynd alveg rétt því þessar tvær einingar hegða sér eins og sitthvor gjaldmiðillinn, skiptigengi þeirra er t.d. breytilegt, og það sem meira er þá hefur verðbólgumarkmið Seðlabankans það í för með sér að gengi verðtryggðu krónunnar fer alltaf hækkandi miðað við þá óverðtryggðu.

Í lögum um gjaldmiðil Íslands stendur (undirstrikun mín):

1. gr. Gjaldmiðill Íslands nefnist króna, er skiptist í hundrað aura.
Í skiptum skulu notaðir peningaseðlar og slegnir peningar (mynt).

3. gr. Peningaseðlar þeir, sem Seðlabanki Íslands lætur gera og gefur út, og peningar þeir, sem hann lætur slá og gefur út, skulu vera lögeyrir í allar greiðslur hér á landi með fullu ákvæðisverði

Í lögum um Seðlabanka Íslands stendur jafnframt:

5. gr. Seðlabanki Íslands hefur einkarétt til þess að gefa út peningaseðla og láta slá og gefa út mynt eða annan gjaldmiðil sem geti gengið manna á milli í stað peningaseðla eða löglegrar myntar.
Seðlar og mynt sem Seðlabankinn gefur út skulu vera lögeyrir til allra greiðslna með fullu ákvæðisverði.

Á heimasíðu Seðlabankans stendur svo:

"Eftirtalinn lögeyrir er í gildi á Íslandi: Seðlar að fjárhæð kr. 5000, 2000, 1000 og 500, og mynt að fjárhæð kr. 100, 50, 10, 5 og 1."

Samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu lögeyrir og ef við lítum svo á að verðtyggð króna sé ekki sami gjaldmiðill, þá þýðir það að að fjárkröfur í verðtryggðum krónum eru ólöglegar á Íslandi! (Sama á við um "gengistryggðar" krónur.)

Tókuð þið eftir þessu? Fjárkröfur í verðtryggðum krónum eru ólöglegar!

Magnús Steinar: Nei þetta er alls ekki neitt fokking djók heldur fokking ánægjuleg kynning sem þessir bankar héldu í dag á starfsemi sinni!

Haraldur Rafn: Eins og fulltrúar norrænu samfélagsbankanna útskýrðu á kynningunni þá er það einmitt ekki skynsamlegt að þeir opni útibú hér sjálfir. Ástæðan er sú að til þess að samfélagslegu gildin þjóni markmiðum sínum er nauðsynlegt að vera í góðum tengslum við nærsamfélagið. Þessir bankar eru ekki hluti af íslensku nærsamfélagi og því væri miklu betra ef einhver Íslendingur eða helst hópur af okkur myndi stofna slíkan banka. Norrænu fulltrúarnir lýstu hinsvegar yfir vilja til þess að styðja við slíkt framtak og meðal annars þess vegna hafa þeir ákveðið að verja þriðjungi verðlaunafjárins til beinna fjárframlaga til slíkra verkefna á svæðum innan Norðurlanda sem ekki hafa slíka bankastarfsemi nú þegar, en það eru aðallega Finnland og Ísland. (Gettu svo hvað IFRI hópurinn sem ég tilheyri hefur í bígerð... ;)

Guðmundur Ásgeirsson, 2.11.2010 kl. 21:47

5 Smámynd: Snjalli Geir

Það er merkilegt hvað mikið er skrifað um peninga á þess að fólk viti hvað þeir eru. Ég er fullviss um að ef allir fjármálaráðherrar Ísland væru spurðir um hvað peningar væru þá myndu allir falla á prófinu.

Hvað eru peningar? Í dag þekkjum við þá sem skítugan pappír, brotajárn og tölur inni í bankakerfinu. Þetta var ekki flókið en fáir gera sér grein fyrir þessu. Á Ensku kallast þetta FIAT money (jafn trúverðugt og bílategundin). Google-ið og þið munuð finna!

Það er von og trú okkar um að við getum skipt þessum peningum fyrir vörur og þjónustu sem gefur þeim verðgildi. Peningar eru sem sagt ávísun á framtíðarverðmæti ásamt því að vera greiðslumiðill.

Hvernig fæðast peningar? Peningar fæðast með útgáfu skuldar. Ef ég á 100 krónur þá er einhver úti í þjóðfélaginu sem skuldar 100 kr á móti. Þegar það á að fella niður skuldir þá verður einhver krónueigandi að minnka sínar væntingar um framtíðarverðmæti.

Síðan höfum við verðlag. 100 kr í dag gefa mér ekki jafn mikið af vörum og þjónustu og í framtíðinni að jafnaði af því að við höfum breytilegt verð á vörum og þjónustu.

Það er tilgangslaust að reyna að útskýra fyrir fólki hvað verðtryggingin er og út á hvað hún gengur þegar full frískt (m.a. útvarps-) fólk vill ekki skilja hvað verðtrygging er.

Héraðsdómur Suðurlands er sammála mér þegar ég segi að það hefur ekki orðið neinn forsendu brestur varðandi lán. Eini forsendubresturinn sem hefur orðið er kaupmáttar rýrnunin. Laun eru hvorki verðtryggð né heldur gengistryggð. Þegar framtíðarskuldbindingar geta sveiflast um langt yfir 100% (sem sagan sannar) þá verða lántakendur að taka þær (sveiflurnar) með í reikninginn. Í dag er bandaríkjadalur til sölu á 110 krónur. Það er sama verð og hann fékkst á fyrir ca 10 árum. Hvar er forsendubresturinn??? Verðbólgan fór í 120% rétt uppúr 1980. Hæðst fór í rúm 18% í hruninu.

Það er enginn munur á peningakerfinu sem var í Zimbabwe og við notumst við í dag. Það er ekkert sem segir að það sem gerðist þar geti ekki gerst á Íslandi eða í öllum heiminum. Kerfið er uppbyggt til þess að springa á endanum einsog blaðra sem sífellt er blásin meira upp.

Bankakerfið gengur út á það að búa til peninga, lána þá út og taka síðan raunveruleg verðmæti uppí skuldirnar þegar lántakandi getur ekki útvegað peningana til þess að skila þeim í bankann. Sniðugt!

Þegar gjaldmiðill er sterkur þá er auðvelt að taka erlend lán því að þá er lántakandi að taka mikla áhættu. Þegar gjaldmiðill er veikur þá fást ekki erlend lán því að þá er mikil áhætta hjá bankanum sem gerir upp í innlendum gjaldmiðli. Bankinn stillir dæminu alltaf upp til hagræðis fyrir sig og óhagræðis fyrir lántakanda.

Ef það eru til tveir gjaldmiðlar á Íslandi, verðtryggð króna og óverðtryggð þá hlýtur að vera sú þriðja til líka sem er krónur í útláni á okurvöxtum. Svona málflutningur er bara kjaftæði hjá fólki sem vill ekki borga sínar skuldir heldur fá gefins peninga. Þjóðfélagið er búið að fara í gengum sparifjárbrennslu á árunum fyrir verðtrygginguna. Af hverju viljum við endurtaka þann leik?

Að lokum vil ég benda á að ef verðtrygging yrði afnumin þá eru það bara sparifjáreigendur sem tapa og bankarnir myndu græða. Lántakendur myndu greiða jafnvel hærri vexti þar sem bankarnir myndu alltaf lána peninga út með verðbólgu-áhættu-álagi til viðbótar við væntanlegt verðbólgustig plús raunávöxtun. Verðtrygging er hagkvæmasti samningur sem lántakandi og lánveitandi geta gert með sér.

Snjalli Geir, 3.11.2010 kl. 09:35

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Snjalli Geir. Ég er ekki sammála þér um ágæti verðtryggingar. Í núverandi mynd þá setur hún nefninlega alla áhættuna af verðlagsbreytingum yfir á lántakandann. Ef við viljum einhverskonar verðtryggingu þá þætti mér eðlilegra að lánveitandi og lántaki myndu deila með sér áhættunni, og að verðtryggingin miðaðist við verðmæti hinnar keyptu eignar en ekki sveiflast vegna skógarelda í Rússlandi eða skattahækkunarduttlunga misvitra stjórnálamanna. Ef þú horfir til dæmis á verðtrygginguna í núverandi mynd þá er hún bara alls ekki að virka sem viðeigandi mælikvarði í þeim viðskiptum sem lánað er til.

Grunnhugmyndin á bakvið verðtryggingu er að tryggja verðgildi þeirra fjármuna sem lánaðir eru til ákveðinna viðskipta, þannig að t.d. ef ég fæ lánað fyrir einu húsi þá greiði ég eitt hús til baka plús umsamda vexti, burtséð frá því hvaða breytingar hafa orðið á verðlagi vörunnar (húsnæðis) í millitíðinni. Ef það væri rauninn þá ættu húsnæðislán að sveiflast í samræmi við húsnæðisverð en það gera þau ekki. Þrátt fyrir að kaupmáttur krónunnar í fermetrum húsnæðis talinn hafi í reynd farið vaxandi (vegna verðlækkunar húsnæðis) þá hafa húsnæðislánin líka hækkað, þannig að nú þarf ég að endurgreiða tvö hús plús vexti í stað eins. Þetta er það sem gerist þegar menn eru farnir að líta á peningana sjálfa sem verðmæti í sjálfu sér (sem er ranghugmynd) í stað þeirra áþreifanlegu verðmæta sem fást keypt fyrir þá (raunverðmæti).

Að verðmæti húsnæðislána skuli taka mið af ótengdum fyrirbærum og atvikum eins og verðiu á áfengi eða áskriftum fjölmiðla, sem hafa akkúrat ekkert með húsnæðið sjálft að gera, er einhver mesti útursnúningur á heilbrigðri skynsemi sem fyrirfinnst í hagkerfum vesturlanda. Eða hvernig þætti þér ef þú myndir kaupa bíl, og svo tveimur mánuðum seinna myndi bílasalinn senda þér viðbótarreikning vegna þess að í millitíðinni hefði verð á sósujafnara og gólfteppum hækkað? Flestum myndi líklega þykja það frekar óeðlilegt, enda voru þeir bara að hugsa um að kaupa sér bíl og er kannski skítsama um sósujafnara og gólfteppi. Verðlagning á að vera gegnsæ en með tengingu við misgáfulega og síbreytilega verðlagsvísitölu er það gert nánast útilokað.

Ef þú átt hinsvegar mikið af verðtryggðu sparifé er e.t.v. skiljanlegt að þú hugsir af hlýhug til verðtryggingarinnar. En hversu margir ætli séu svo heppnir á Íslandi í dag að eiga verðtryggt sparifé? Það er a.m.k. ekki almúgamaðurinn sem hefur þurft að sjá á eftir því öllu í síhækkandi afborganir stökkbreyttra húsnæðislána. Einmitt vegna verðtryggingarinnar!

Guðmundur Ásgeirsson, 3.11.2010 kl. 19:21

7 Smámynd: Snjalli Geir

Ágæti Guðmundur,

1. Áhættunni er deilt á milli lántakenda og lánþega því það er bæði verðbólga sem leiðir til hækkunar og svo verðhjöðnun sem leiðir til lækkunar á höfuðstóls láns. Það er ekkert tryggt að sá sem lánar út á verðtryggðan höfuðstól geti keypt sama magn af vöru þrátt fyrir verðtrygginguna. Verðlag breytist á vörum innbyrðis og þá sérstaklega á eignum sem eru mjög háðar framboði og eftirspurn. Ég tel að með meðaltals verðlagsvísitölu einsog við búum við í dag þá sér bæði gætt hagsmuna lánþega og lánveitenda.

2. Ef húsnæðislán væru vísitölutengd íbúðarvísitölu þá hefðu þeir sem keyptu húsnæði rétt fyrir árið 2000 aldeilis fengið skell þegar íbúðaverð nánast þrefaldaðist á 8 árum. Hvaða réttlæti væri í því. Ekki kvörtuðu lántakendur verðtryggðra lána þegar íbúðaverð rauk upp og þeir sátu uppi með sýndarhagnað þegar verðbólgan samkvæmt verðlagsvísitölu hækkaði ekkert á við hækkun á íbúðarhúsnæði. Hefðu lánveitendur ekki átt að rísa uppá afturlappirnar og heimta hlutdeild í „hagnaðinum“.

3. Við verðum að passa okkur á að blanda ekki saman verði og verðmæti. Verð er krónutalan sem við greiðum fyrir hluti. Verðmætið er notagildið. Notagildi íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki breyst mikið undanfarin 100 ár. Gömul hús hafa mjög hátt endursöluverð enda er fólk að greiða mikið fyrir staðsetningu.

4. Til lengri tíma litið þá jafnast út verðlag bæði á húsnæði og launum. Hinsvegar koma sveiflur í öllu á jörðinni og til þess gera ábyrga greiðsluáætlun verður að gera næmni greiningu á fjárhag fólks. Ekki bara kaupa á lánum á toppnum, fara á hausinn í niðursveiflunni og kenna öllum öðrum síðan um. Það verður að spyrja hvað ef þetta gerist, hvað ef hitt gerist og svo framvegis. Hvað gerist ef gengið fellur um 100%, hvað gerist ef verðbólgan fer uppí 20%, 30% eða 50%. Hvar liggja þolmörkin. Myndir þú byggja hús á höfuðborgarsvæðinu án þess að taka tillit til jarðskjálfta?

5. Já hluti af mínu sparifé er verðtryggður. Ég seldi íbúð á 9,2 milljónir árið 1999 og hún var seld á 24 milljónir haustið 2007. Í dag er verið að bjóða íbúðina við hliðina á 22 milljónir ásett verð. Ásett verð á gömlu íbúðarhúsnæði er allt of hátt í dag og lifa margir íbúðareigendur og fasteignasalar í sæluvímu 2007 ennþá þegar þeir verðleggja húsnæði í dag.

6. Ég sá að hlutirnir gætu ekki gengið upp 2007. Ég keypti mér gamla Toyotu og staðgreiddi. Ég keypti ekki íbúðarhúsnæði á þreföldu verði. Ég lét heldur ekki fyrirtækið sem ég vann hjá 2007 kaupa 4,3 milljónkróna jeppa undir rassinn á mér á myntkörfuláni. Ég er búinn að fá mig fullsaddan af sjóðasukki og tek ekki þátt í slíku. Ef það á að fara taka af verðtrygginguna þá er bara að fjárfesta í steinsteypu og skulda nánast ekki neitt.

Snjalli Geir, 4.11.2010 kl. 12:34

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir skoðanaskiptin Snjalli Geir, málflutningur þinn er málefnalegur þó ég sé ekki sammála öllu.

"Áhættunni er deilt á milli lántakenda og lánþega" ... "verðhjöðnun sem leiðir til lækkunar á höfuðstóls láns"

Hvenær hafa verðtryggð lán lækkað? Ekki síðan ég komst til vits og ára. Það er meira að segja yfirlýst markmið sem er undirritað af seðlabankanum og stjórnvöldum að stefna að 1,5-4% verðbólgu og tryggja þannig sífellda hækkun verðtryggðra lána yfir lengri tíma. Með öðrum orðum er gengið úr skugga um að lánveitendur geti ekki tapað þrátt fyrir verðlagsbreytingar. Hver er þá áhætta lánveitandans ef peningamálastefnan í heild sinni hefur skuldbundið sig til að vera honum hliðholl?

"þá hefðu þeir sem keyptu húsnæði rétt fyrir árið 2000 aldeilis fengið skell þegar íbúðaverð nánast þrefaldaðist á 8 árum"

Laun hækkuðu á sama tíma umfram verðlag. Samkvæmt því hefði þetta fólk hæglega átt að geta staðið undir hækkuðum afborgunum. Með sömu rökum og þú beitir mætti þá allt eins segja að fyrst sá hópur slapp með lægri afborganir á því tímabili en endurspegluðu verðmæti þess sem verið var að borga fyrir, þá hafi þau í raun verið að fá afslátt sem nýir kaupendur fengu ekki.

"Við verðum að passa okkur á að blanda ekki saman verði og verðmæti."

Hjartanlega sammála því. Ég leyfi mér að fullyrða að ég geri mér betur grein fyrir muninum á þess tvennu en almennt gengur og gerist. Verð er ekkert annað en tala, sem hefur enga merkingu nema í samanburði við aðrar tölur eins og ráðstöfunartekjur eða almennt verðlag. Verðmæti er hinsvegar hlutfall verðsins í þeim samanburði, en eins og orðstofninn felur í sér er það líka matsatriði.

"Myndir þú byggja hús á höfuðborgarsvæðinu án þess að taka tillit til jarðskjálfta?"

Nei það ég myndi ég ekki gera. En myndir þú kaupa fasteign á Íslandi og búast við algjöru efnahagshruni sem þú verðir svo látinn borga fyrir? Slíkur atburður fellur utan þeirra 95% tilvika sem eðlilegt þykir að gera ráð fyrir í áhættumati við gerð fjárhagsáætlana. Með öðrum orðum þá myndu áætlanir ekki þurfa gera ráð fyrir þessum möguleika til að geta þó talist skynsamlegar.

"Ég sá að hlutirnir gætu ekki gengið upp 2007."

Það sá ég líka þegar ég stóð í Grafarholtinu og taldi byggingarkranana. En þá var það því miður of seint því ég var búinn að eignast 3 börn og kaupa húsnæði undir fjölskylduna. Það var ekki gáleysisleg skyndiákvörðun heldur nauðsynleg ráðstöfun því einhversstaðar þurftum við að búa. Þá gerði ég kostnaðarmat á því að kaupa vs. leigu og niðurstaðan var borðleggjandi miðað við þáverandi forsendur og með eðlilegum vikmörkum. Sá forsendubrestur sem varð á því mati er hinsvegar helsta röksemdin fyrir kröfunni um að lánin verði leiðrétt.

Enn og aftur þakka ég fyrir skoðanaskiptin, af málflutningi þínum er augljóst að þú ert alls ekki neinn vitleysingur Snjalli Geir. Bestu kveðjur.

Guðmundur Ásgeirsson, 4.11.2010 kl. 14:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband