Sama og að vera pínulítið óléttur...

Hvaða máli skiptir hvort Árni Johnsen er fyrsti eða annar eða þriðji þingmaður í sínu kjördæmi? Er útstrikunaraðferðin einhverskonar lýðræðislegt "ulla bjakk" á frambjóðendur eða alvöru kjósendavald?

Hvað ef frambjóðandi er útsmoginn loforðasölumaður sem smalar vildarvinum sínum í prófkjör? Ef frambjóðandi veit að fólk muni strika hann út í kosningum þá snýst "kosningabaráttan" um að troða sér nógu ofarlega á lista svo útstrikanir nái ekki að koma viðkomandi út af þingi.

Þetta er einfalt reikningsdæmi. Ef prófkjörsþátttakendur Sjálfstæðisflokksins eru t.d. þúsund manns en kjósendurnir tugir þúsunda þá er prófkjörið aðal baráttuvettvangurinn. Það er búið að raða spilunum í stokkinn þegar hinn "venjulegi kjósandi" mætir í kjörklefann. Val kjósandans snýst þá um frambjóðandann sem hann vill EKKI kjósa - semsagt, það er búið að snúa lýðræðinu á haus.

Svona system gerir prófkjör að aðalatriðinu og kosningarnar verða aukaatriði, nánast formsatriði. Það er búið að setja atburðarásina í farveg sem prófkjörið ákveður. Lítið brot flokksbundinna kjósenda getur stjórnað því hverjir komast á þing og frambjóðandinn veit jafnvel hverjir það eru og getur ráðið sínum ráðum og útbýtt loforðum til að komast á lista.

Eins og gamli heimilislæknirinn minn sagði; "Það er ekki hægt að vera pínulítið óléttur." Annað hvort er þetta lýðræði eða ekki. En ég held að þetta "prófkjörskerfi" sé séríslensk útgáfa af pólitískri spillingu. 


mbl.is Árni Johnsen niður um þingsæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú tekur hér rangan pól í hæðina. Útstrikanir HAFA áhrif.

Í miklum mæli gætu þær jafnvel ýtt mönnum úr öruggu framboðslistasæti, sem nær kjördæmakosnu þingsæti eða jöfnunarmannssæti, en í öðrum tilvikum gætu þær ýtt mönnum svo rækilega niður á lista þingmanna, að viðkomandi komi ekki lengur til greina sem ráðherraefni.

Það er til lítils hjá þér að fara í kringum þá staðreynd, að Árni nýtur trausts í kjördæmi sínu og einkum í Vestmannaeyjum, og það kemur ekki til af engu, enda eru vinsældir ekki auðkeyptar og sízt til lengdar.

Jón Valur Jensson, 28.4.2009 kl. 09:49

2 Smámynd: Jón Ármann Steinsson

Prófkjör eiga að sameina en ekki sundra. Sjálfstæðisflokksins eiga ekki að þurfa að verja heiður flokksins með smölun GEGN Árna Johnsen gagngert til að koma honum úr "öruggum sæti". Svoleiðis prófkjör eru uppskrift að klofningi eða fylgistapi. Þess vegna situr flokkurinn uppi með "óæskilegan" mann á lista sem fær fleiri útstrikanir en hann fékk atkvæði í prófkjörinu.


Við höfum fullan rétt til að krefjast þess að stjórnmálamenn séu heiðarlegt fólk. Ég tel Árna skorta upp á þá skilgreiningu því hans eina eftirsjá virðist vera að hann var nappaður. Að óbreyttu er Árni nú og verður áfram tákngerfingur fyrir Gamla-Ísland, spillta stjórnmálamenn og samtryggingu þeirra þegar upp kemst.


Þá er eftir að útskýra sakaruppgjöfina - sem er nota bene sú eina sem ég man eftir í sögu lýðveldisins. Allsstaðar í siðmenntuðum þjóðfélögum hefi sú aðgerð orðið pólitískt armageddon fyrir sitjandi ríkisstjórn - en á Íslandi ypptu menn bara öxlum, fóru í fýlu í korter og lífið hélt svo áfram sinn vanagang.


Árni Johnsen hafði val um að viðurkenna brot sitt, iðrast og endurheimta þannig traust folks en hann kaus aðra leið. Traust er ekki gefið heldur áunnið

Jón Ármann Steinsson, 29.4.2009 kl. 04:55

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, Jón Ármann, þessi sakaruppgjöf er alls ekki hin eina í sögu lýðveldisins.

Jón Valur Jensson, 30.4.2009 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband