4.11.2008 | 09:38
tregða til sjálfskoðunar
Íslendingar eru ekki tilbúnir að skoða eigin gerðir með gagnrýnisaugum. Hvorki í dómsmálum, pólitískum uppgjörsmálum né þegar kemur að efnahagslegu siðferði eða meintum efnahagsbrotum eins og hér um ræðir.
Við skulum ekki gleyma því að helstu breytingar á íslensku réttarfari hafa orðið vegna þrýstings frá Evrópubandalaginu og útaf EES. Það er ekki nema örstutt siðan að rannsóknarfulltrúar bæjardóms fóru með bæði ákæruvald og dómsvald - já, sami maður þurfti að ákæra og gera svo upp við sig sekt viðkomandi. Okkur finnst þetta fáránlegt í dag en í denn var þetta kerfi varið með kjafti og klóm af þeim sem sátu við kjötkatlana.
Nú halda menn kannski að hægt sé að skoða fjármálasukk og spillingu með hlutlausum augum. Ég tel að það sé barnaskapur þar til við höfum fjarlægst þetta tímabil sem nú er að ganga yfir. Kannski er "kerfið" tilbúið í slíka sjálfsskoðun þegar (eða ef) við þurfum að ganga í Evrópubandalagið og taka upp lög og viðmið sem eru áratugum framar en okkar eru í dag. Núna verður sjálfsrýni kerfisins hálfkák eins og hingað til.
Í íslenskri réttarfarssögu eru fá eða engin fordæmismál fyrir svona brotum eins og hér er ýjað að. Ef það finnast slík fordæmi erlendis þá eru þau ekki gjaldgeng í samanburðarrökfræði sakarvaldsins þegar íslensk löggjöf er á kardimommubæjarstigi miðað við EB lög. Ég hef enga trú á íslensku réttarkerfi þegar hvert einasta efnahagsbrotamál er prófmál og engir fordæmisdómar eru rannsakendum eða dómendum til hliðsjónar. Í slíku umhverfi taka rannsóknir langan tíma og Baugsmál verða að "norminu" en ekki undantekningunni.
Ítreka kröfu um rannsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.