14.11.2008 | 23:41
Arfleifð Davíðs; tómarúm eftir sterkan leiðtoga
Það er algengt að sterkir leiðtogar velji sér hirð jámanna til að lengja valdatíma sinn. Innan hirðar dafna ekki sterkir leiðtogakandídatar því þeim er ekki vært í nálegð þess sem ræður. Þegar sterki leiðtoginn hverfur af vettvangi skilur hann eftir sig tómarúm sem er oft fyllt af bírókrata sem hefur unnið sig upp með jámennsku við leiðtogann. Þannig skiptast á sterkir og veikir leiðtogar og við sjáum það víða í mannkynssögunni. Þetta er ekki alsæmt kerfi því ef sterkir kandídatar fara gegn sterkum leiðtoga þá er hætta á klofningi í stjórnmálaflokkum, valdaráni í alræðisstjórnkerfi, konungsmorði í erfðaveldi, - semsagt átökum sem best eru leystar með kosningum í lýðræðisþjóðfélagi.
Nú er komið upp ófremdarástand í Sjálfstæðisflokknum sem gæti endað með klofningi. Fyrrverandi leiðtogi flokksins hagar sér eins og hann stjórni þeim mönnum sem stjórna landinu. Núverandi leiðtogi flokksins talar eins og aðstoðarmaður utanríkisráðherra. Hann hefur alist upp í kjöltu Davíðs og hans helsti kostur þar var að tjá sig fálega og hrífa engann til fylgis við sig vegna augljósra leiðtogahæfileika sinna.
Í fjölmiðlum tjáir seðlabankastjóri sig eins og stjórnmálamaður en ekki eins og embættismaður. Maður hefur heyrt að hann eigi harma að hafna gagnvart útrásarvíkingum, fjölmiðlakóngum og matvörukaupmönnum. Sagt er að hann hafi verið með yfirlýsingar í veislum og sagt hitt og þetta. Svo er sagt að seðlabankastjóri sé hefnigjarn maður og hafi séð tækifæri til að jafna gamlar skuldir með því að fella Glitni - og hefniblindan hafi verið slík að hann sá ekki afleiðingarnar fyrir, enda ekki fagmaður í bankastjórastarfinu. Þetta verður almannarómur í litlu þjóðfélagi þar sem fólk er að reyna að skilja hvar ábyrgðin liggur, spyr og fær engin svör.
Sé þetta allt dagsatt, eða bara lífseigar villuupplýsingar, þá mega stjórnvöld ekki láta eins og ekkert sé. Hvernig væri það hægt þegar við blasir hrun efnahagskerfisins og forsjáanleg harðindi heillar þjóðar í áratug? Af hverju taka stórnvöld ekki á þessu máli eins og tíðkast í lýðræðisríkjum? Upplýsa fólkið? Kalla menn til ábyrgðar gerða sinna? Vilja þau frekar að áreiðanlegar fréttir, dylgjur og kjaftasögur skiptist á um að upplýsa þjóðina um hvaða valkosti Davíð hafði þegar Glitnismálið kom inn á borð til hans - eða hvaða valkosti hann hafði fyrir tveimur árum til að koma í veg fyrir það - og forða okkur þar með frá núverandi ástandi? Er þetta aðgerðarleysi stjórnvalda nú kannski sönnun þess að við þurfum nýja leiðtoga, nýja menn við stjórnvölinn sem skulda engum greiða og stjórna ekki í skugga fyrirrennara sinna? Eða þurfum við bara fleiri jámenn til að þæfa málið?
Sé eitthvað til í öllu þessu fjargviðri sem fjölmiðlar og bloggsíður eru að birta (og ég hef stílfært og stytt hér að ofan) þá myndi sterkur forsætisráðherra víkja embættismanninum Davíð Oddssyni frá, þó áhættan sé að Sjálfstæðisflokkurinn klofni. En veikur forsætisráðherra myndi eflaust taka áhættu á að kljúfa flokkinn með því að láta Davíð sitja áfram. Báðir kostirnir eru slæmir. Bírókratinn Geir er í vanda staddur og því freistar þriðji möguleikinn eflaust mest; að bjóða Davíð stöðuhækkun og finna fyrir hann feitari bita á ríkisjötunni. Væri sá biti á annað borð til því seðlabankinn er engin horrim. Stöðuhækkun væri bírókratíska leiðin út úr klúðrinu. Skítt með vilja þjóðarinnar. Skítt með allt tal um ábyrgð.
Sjálfstæðisflokkurinn lengi lifi! Ég meina "Nýi Sjálfstæðisflokkurinn"...
Jón Ármann Steinsson
PS. Fréttamannafundur forsætis- og utanríkisráðherra í dag opinberaði hver er sterkari leiðtogi af þeim tveimur. Ingibjörg kom fyrir eins og starfandi forsætisráðherra á þeim fundi. Úr tómarúmi Geirs heyrðum við bírókratískar neðanmálsgreinar, jaml og fuður þegar Ingibjörg gerði hlé á máli sínu til að anda. Hún hafði svörin sem Geir hafði ekki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.11.2008 kl. 07:45 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.