Nýtt Ísland - eða bara andlitslyftingu?

Kosningar eru góð hugmynd en nú þarf að breyta forsendunum svo kerfið virki. Markmiðið er NÝTT ÍSLAND. Markmiðið er ekki að kjósa nýja menn til að sitja við sömu gömlu spillingarjötuna.

Kjósum stjórnlagaþing til eins árs sem endurskoðar innviði íslenska stjórnkerfisins og tekur kerfi annarra landa til fyrirmyndar. Fá umræðu í gang í þjóðfélaingu um breytingar. Nóg er af vítum að varast og nú þurfa stjórnmálamenn að hlusta. Markmiðið er að breyta þessu rotna eftirlitslausa stjórnkerfi sem kom okkur í núverandi vandræði. Það stjórnlagaþing myndar þjóðstjórn allra flokka.

En hvernig á svo að byrja verkefnið? Jú, númer eitt er að breyta stjórnarskránni úr "danskri þýðingu" yfir í íslenska stjórnarskrá og sækja það besta úr stjórnarskrám þeirra þjóða sem við viljum líkjast. Við erum ekki lengur dönsk nýlenda.

Fækka þingmönnum, gera landið að einu kjördæmi. Við erum öll íslendingar.

Banna með lögum að innanflokks hreppapólitík og valdapot ráði því hvort "þingmaður" fær að stjórna viðskiptamálum þjóðarinnar, umhverfismálum, dómsmálum, menntamálum. Skylda stjórnmálaflokka sem fara í ríkisstjórnarsamstarf til að ráða "fagfólk" í ráðherrastöður. 

Framboð á ekki að vera miði í biðröðina til að gerast ráðherra. Við þurfum ekki fleiri egóista sem sitja fyrir framan spegilinn og æfa kokkteilræður - við þurfum fólk sem vill vinna þjóðinni gagn.

Lögbinda hvaða skilyrði embættismenn þurfa að uppfylla svo hæfileikar, menntun og reynsla verði metin hærra en ættartengsl, pólitísk hrossakaup eða laun fyrir gamla "greiða".

Ekki lækka laun þingmanna og ráðherra. Þá fáum við bæði lélega lagasmiði og framkvæmdamenn. Með færri þingmönnum getum við boðið hærri laun til þeirra sem einstaklinga. Það á ekki að vera fórn að fara í pólitík eða forréttindi þeirra sem geta lifað af eignum sínum. Það á að borga þingmönnum svo vel að þeir hafi engar freistingar umfram þær að vinna vinnuna sína. Skoðum feril Finns Ingólfssonar til að sjá hvað ber að varast.

Ef þingmaður verður ráðherra þá á hann að segja þingsæti sínu lausu. Öðru máli gildir um forsætisráðherra sem yrði samkvæmt lögum að halda sínu þingsæti. Forsætisráðherra er verkstjórinn. Hann verður að vera allt í öllu milli þings og fagráðherra.

Banna að þingmenn fari með fjármál fyrir nefndir og ráð. Ekki láta sendibílstjóra Þjóðleikhússins koma í stað fyrir lögbundið eftirlit með framkvæmdanefndum - og setja lög sem koma í veg fyrir að dæmdir klúbbmeðlimir flokkanna fái sakaruppgjöf í skjóli nætur í fjarveru forseta sem ekki vill beygja sig og bukta fyrir forsætisráðherra.

Efla efnahagsbrotadeild lögreglunnar svo það sé til einhvers að kæra og brotamenn óttist að þurfa að standa skil gerða sinna. Halda málaskrá yfir allar kærur sem þeir taka að sér og/eða vísa frá og gera hana aðgengilega á netinu (efnislega, ekki atriðalega) og birta þar einnig hvað mörg mál eru í gangi, hvar þau eru í kerfinu og hvenær sé væntanleg niðurstaða. Einnig skrá þegar málum er vísað aftur til rannsóknar og láta embættið útskýra af hverju slíkt gerist. Það er aðhald og gegnsæi sem vantar og þannig er komið í veg fyrir spillingu. 

Auglýsa embætti lögreglustjóra, saksóknara og forstjóra fjármálaeftirlits og láta þingið ráða þá og gefa þeim fjármálaramma til að vinna eftir. Færa þessa embættismenn nær þjóðinni og leyfa þjóðinni að fylgjast með bæði ráðningunni og embættisverkum þeirra. Með nýjum ráðningareglum eru lögreglustjórar ekki lengur jámenn háðir dutlungum dómsmálaráðherra og hann getur ekki breytt kerfinu til að losna við menn sem dansa ekki eftir hans flautu. Jafnvel má kjósa suma embættismenn á landsvísu, t.d. ríkissaksóknara eða ríkislögreglustjóra?  Þá er allur klíkuskapur úr sögunni og þjóðin ræður.

Á Nýja Íslandi hætta ráðuneyti að vera flokksráðuneyti og fara að vera fagráðuneyti. Þá skiptir ekki máli lengur hvort Geir fái þetta ráðuneyti eða Björgvin hitt ráðuneytið. Einum flokki er ekki lengur akkur í að fá ákveðið ráðuneyti svo hægt sé að vinna t.d. byggðastefnu eftir framsóknaráherslum. Sjóndeildarhringur stjórnkerfisins víkkar og áherslurnar breytast öllum íslendingum í hag.

Sem sagt búa til stjórnkerfi sem er heiðarlegt, skilvirkt og vinnur gegn frændsemisáráttu og einkavinavæðingarduld núverandi kerfis. Með nýju gagnsæju stjórnkerfi visna rætur spillingar og lýðræðið blómstrar!

En skyldu atvinnupólitíkusar setja sína hagsmuni í fyrsta sæti eða eru þeir með hagsmuni nýja Íslands í hjarta? Vilja þeir byggja nýtt stjórnkerfi - eða sýndarlausn svo allt líti vel út á yfirborðinu? Þannig vinnubrögð gerðu þjóðina að spillingarbæli og ef atvinnupólitíkusar skilja það ekki þá eiga þeir ekkert erindi í stjórnmál.

Jón Ármann Steinsson      

(p.s. afsakið prentvillurnar, þetta var skrifað í flýti á kaffihúsi í Los Angeles)

www.s.is     jon@s.is


mbl.is „Eigum ekki að óttast þjóðina“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband