25.3.2009 | 02:33
Bob Dylan í skítamálum...
Nú andar suðrið sæla vindum fúlum á Malibu.
Bob Dylan er með útikamar á lóðinni sinni sem gefur frá sér eiturgufur í sólarhitanum. Pestin berst til nágranna, vegfarenda og strandgesta og allt hverfið logar í illdeilum. Næsti nágranni Dylans eru hjón sem hafa neyðst til að yfirgefa húsið sitt þegar vindáttin ber kamarfnykinn upp hlíðina. Konan er orðin hugsjúk og getur ekki hugsað sér að koma heim milli vindbreytinga heldur vaknar um nætur í angistar svitabaði. Sem betur fer þá er vindátt frá Malibu ekki heim til mín hér í Encino því Santa Monica fjöllin skilja í milli.
Já, þetta er heldur betur dramatískt - en þessir nágrannar eru í skaðabótamáli við Dylan útaf kamarpestinni. Kannski útskýrir það sjúkdómseinkennin eitthvað?
Ég á kunningja sem býr sirka mílu frá Dylanhúsinu og hann segir mér að Dylan hafi verið kærður fyrir brot á mengunar- og heilsuverndarlögum. Dylan segir þetta kamarmál tómar ýkjur og ilmurinn sé náttúrlegur og frískandi ef eitthvað er.
Kamarleigufyrirtækið hefur ítrekað reynt að fá aðgengi að lóðinni til að skipta út kamrinum fyrir nýjan. Það hefur ekki gengið eftir en sagan segir að Dylan sé að semja tónlist og vilji frið.
Sumarið er ekki langt undan. Undanfarna daga hefur verið rigning og rok, næstum mörlandaveður, og ferskir Kyrrahafsvindar hafa leikið um Malibu. Spáin næstu daga er meiri sól og léttur norðanvindur.
Never a dull moment in LA...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.