Hvaða kvöð fylgdi peningunum?

Sjálfstæðisflokkurinn vann í lottóinu án þess að nokkur vissi af því. Fjárhagsvandi flokksins var nánast úr sögunni án þess að forystan yrði þess vör. Samkvæmt Bjarna Ben og flokksmaskínunni þá voru það “óviðkomandi aðilar” sem skúbbuðu upp 50-60 milljónum sisona, lögðu inn á reikning Sjálfstæðisflokksins. Allt fullkomlega eðlilegt á sínum tíma, kvaðalaust og frjálst, en samt vandlega falið.


Hvað vantar í þessa "frétt" til að hún meiki sens?

Hvernig getur stjórnmálaflokkur sem er með fjármálin í hálfgerri klessu komið fjármálum á þurrt nánast á einni nóttu án þess að framkvæmdastjóri og prókúruhafi viti af því? Nýbakaður framkvæmdastjóri veit ekkert heldur en framlagið kom meðan hann var að taka við búinu, þ.m.t. fjármálunum. Fjáröflunarnefnd flokksins segist koma af fjöllum. Flokksritari, varaformaður og ráðherrar gapa af undrun. Og svo fela þeir sig...


Þegar viðsnúningur átti sér stað í fjármálum flokksins og hann fór gersamlega framhjá lykilmönnum hans, þá spyr maður hvort menn með svona athyglisbrest eigi yfirleitt heima í stjórnmálum? Þessir sömu menn standa uppá sápukössum, segja spillingu og leynimakki stríð á hendur og hrópa: "Kjósið mig, treystið okkur! Ex Dé!"

En útsjónarsömum Sjálfstæðismönnum er ekki alls varnað. Flokksmaskínan sá auðvitað strax að finna þyrfti blóraböggul til að axla ábyrgð. Best að blórinn hafi engu að tapa, a.m.k. ekki atkvæðum. Stígur þá fram Geir Haarde, - maður sem þar til fyrir örfáum vikum tók ekki ábyrgð á einu né neinu. Nota bene, það var þegar hann gengdi "ábyrgðarstöðu". Nú er hann að verða atvinnulaus um sinn og þá er gott að eiga inni greiða.

Spilling er ekki til nema hún sé viðurkennd. Þess vegna var Ísland óspilltasta land í heimi og því fór sem fór. Nú eru aðrir tímar og eðlilegt að spyrja hvaða kvöð fylgdi þessum peningum og af hverju er/var verið að fela þá? Vilja Sjálfstæðismenn í einlægni hreinsa til - eða sópa ósómanum undir teppið eins og tíðkast hefur hingað til.

Hvað gerði Sjálfstæðisflokkurinn fyrir FL Group og Landsbankann til að eiga þessa rausnargjöf skilið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband