Ljótari kassi vandfundinn

Góð hugmynd að byggja hótel. Slæm hugmynd að byggja þetta hótel. Ég smellti á linkinn í fréttinni til að skoða fyrirhugaða hótelbyggingu við Leifsstöð.

Vúff! Ef þetta er fyrsta mannvirkið sem ber fyrir augu þeirra sem koma að heimsækja landið - n.b. hótelið er staðsett við útkeyrsluna frá Leifsstöð - þá sé ég ekki nema eitt jákvætt við það: Frá þeirri stundu verða allar íslenskar byggingar fegurri og tilkomumeiri en þessi. Reyndar held ég að skóflustungan sem tekin var um helgina, þ.e. gapandi sárið í hrauninu, sé meira augnayndi...


mbl.is Byggja hótel við Leifsstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

CIA, LSD, hvalkjöt og réttlæti þessa heims.

Sushi kokkur í Los Angeles hefur verið ákærður fyrir að "byrla" veitingahúsagestum hvalkjöt. Alríkislögreglan var með svokallaða "sting operation" sem fletti ofan af glæpakokknum.

Samhengið við eiturbyrlun CIA í Frakklandi eftir stríð er náttúrulega fáránleg. Ennþá hefur enginn verið ákærður fyrir að LSD-eitra fyrir heilu bæjarfélagi nú 60 árum síðar. En sushi kokkurinn situr í súpunni.

Hvalkjöt versus LSD. Hmm...

Við íslendingarnir hér í suður Kaliforníu höldum þorrablót um næstu helgi. Nú er eins gott að vera á varðbergi fyrir FBI og mögulegum "önderkover operatifs" sem gætu slæðst inn á hófið og smakkað á góðgætinu, tekið sýni, handtekið kokkinn. Jafnvel báða kokkana. Það hefur komið upp hugmynd um að kokkarnir okkar klæðist síðum regnfrökkum og útbýti hval og öðru lostæti í húsasundinu við hliðina á hótelinu. Slútandi hattbörð og uppbrettir frakkakragar munu torvelda vitnisburði viðtakenda ef til handtöku kemur. Engir fjármunir munu skipta um eigendur í húsasundinu svo það ætti að vera óhætt fyrir þá sem þiggja bitann. Affarasælla er að þiggja en gefa skv lögum hér vestra. Íslendingafélagið sem selur aðgang að blótinu gæti aftur á móti þurft á góðum lögfræðingi að halda. Svokölluðum "kriminal lojer".

Já, guð hjálpi kokkunum og allri íslensku þjóðinni ef löggan grípur þá glóðvolga með þorramatinn. Ástkæri, ylhýri klakinn kæmist þá í heimsfréttirnar fyrir enn einn glæpinn, (útflutning á ólöglegum fæðuefnum) og það ofan á æseif, bankahrunið, og allt hitt.

Hér er frétt Los Angeles Times um hvalkjötsglæpinn: http://www.latimes.com/entertainment/news/wire/sns-ap-us-whale-sushi-sting,0,2114925.story


mbl.is Gerði CIA tilraun með LSD á heilu þorpi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munurinn á handtöku og mannráni

Já, litla Ísland er undarlegt land. Ef lögreglan hér í Los Angeles hefði hagað sér eins og þessi íslenska lögga (og það lögregluskólakennari skilst mér) þá hefði dómurinn farið öðruvísi.

Í fyrsta lagi þá var ólátabelgurinn ekki handtekinn. Hann var tekinn upp í bíl gegn vilja sínum og síðan ekið með hann þangað sem hann vildi ekki fara og hann skilinn eftir. Í bíltúrnum er honum haldið niðri með fullum líkamsþunga lögreglumannsins sem er ekkert annað en ofbeldi. Maðurinn er með áverkavottorð eftir þessi samskipti við lögregluna en sjálfur beitti hann ekki ofbeldi heldur reif bara kjaft. Hvað ef maðurinn hefði varið sig? Hafði hann rétt til þess eða átti hann bara að hlýða?

Ef þetta var ekki mannrán og frelsissvipting, hvernig skilgreina íslensk lög þá mannrán? Maðurinn var EKKI handtekinn og það er EKKERT í bókum lögreglunnar um atvikið. Þá var þetta varla lögregluaðgerð, eða hvað? Má hver sem er gera þetta við ólátabelgi?

Ég er viss um að ef ég eða þú, sem ekki erum lögreglumenn/konur, hefðum tekið ólátabelginn og ekið með hann nauðugan um bæinn, hnoðast ofan á honum svo stór sá á manninum, og hent honum út úr bílnum þar sem við viljum losna við hann, þá væri það mannrán - hér í Ameríku, þ.e.a.s. En á Íslandi? Well, it depends...

Ef íslenska löggan má þetta af hverju megum við hin þá ekki gera slíkt hið sama, t.d. ef okkur líkar ekki hegðun gestsins á næsta borði? Hver er munurinn? Kannski hliðhollir dómstólar? Fengi ég ákæru? Yrði ég dæmdur? Eru ekki allir jafnir fyrir lögunum? Hmm...

Hér í Los Angeles hefði lögreglan aldrei gert neitt þessu líkt. Hér hefði ólátabelgurinn fengið bætur og ef atvkið væri ekki skráð í lögreglubækur hér þá hefðu lögreglumenn verið reknir. Hér hafa menn lært að lögregluofbeldi veldur samfélagsskaða og trúnaðarbresti - en það var ekki alltaf þannig. Sem dæmi má nefna Rodney King sem lögreglan barði eftir eltingaleik hér um árið en hann fékk 4 milljónir dollara í bætur fyrir lögregluofbeldið. Lögreglan neitaði barsmíðunum (þrátt fyrir myndbandsupptöku), og þeir voru ákærðir og sýknaðir, rétt eins og íslensku lögreglumennirnir hér. Þá urðu mestu uppþot í sögu borgarinnar enda fólk búið að fá nóg af lögguhollustu dómstóla - en á Íslandi yppta menn bara öxlum.

http://en.wikipedia.org/wiki/Rodney_King


mbl.is Lögreglumaður sýknaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitthvað loðið við þennan samanburð

Fréttir dagsins úr efnahagsgeiranum:

Af visir.is: "Rekstrarkostnaður skilanefndar og slitastjórnar Kaupþings fyrir árið 2009 nemur 4.086 milljónum króna."

Á mbl.is les maður að útflutningsverðmæti af heilli loðnuvertíð séu 10 milljarðar:

Hmm... Fjórir milljarðar í rekstrarkostnað fyrir eina nefnd og tíu milljarða innkoma fyrir loðnuflotann.

Það borgar sig greinilega að starfa í endurskoðunar- og lögfræðibransanum. Alltaf nóg að gera í bankavertíðum, bankahruni og líka þess á milli. Fyrst þarf að sýsla með "hagnaðinn" og síðan með tapið.

Svona "feel good" fréttir um 130.000 tonna loðnukvóta og tilheyrandi þénustu fyrir þjóðarbúið missa kraftinn þegar næsta frétt setur allt fjármálasukkið í samhengi...


mbl.is Heimilt að veiða 130.000 tonn af loðnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Save the people of Iceland" - i.e. "ICESAVE" for short

Gat ekki annað en hlegið þegar ég las þessa frétt á mbl.is:

---Stofnuð hefur verið bænaskrá á netinu þar sem hægt er að skrifa undir áskorunina: "Björgum Íslendingum", eða eins og það útleggst á ensku: "Save the people of Iceland"---

Kreppa og hremmingar skapa ný tækifæri og hér er tækifæri til að endurnota frægasta vörumerki Íslands "ICESAVE" enda er það tilvalið nafn á þessa bænaskrá. Hingað til hefur verið hægt að hala inn pening út á vörumerkið. Sjaldan er góð vísa of oft kveðin.

Skyldi ekki vera hægt að selja þessum samtökum vörumerkið?

Úps. Hver á ICESAVE? Þjóðin eða Landsbankinn?

Spyr sá sem ekki veit...


mbl.is „Björgum Íslendingum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Doktor Jekyll og Hr. Steingrímur

Sum mál eru ekki til þess fallin að bera undir þjóðina, segir Steingrímur J.

Ókei. En sum mál hljóta að vera til þess fallin annars hefðum við ekki þjóðaratkvæðagreiðslur. Hvernig mál skyldu það þá vera? Juhu, Steingrímur! Viltu svara því?

Hugtökin "bera undir" og "leggja á" eru myndræn og smart í hvaða samhengi sem er. Það má leggja skuldir á þjóðina en það má ekki bera skuldir undir þjóðina. Halló, Steingrímur! Hver er munurinn?

- - - -

Persónuleikabreytingar Steingríms J. eru tilefni í doktorsritgerð í stjórnmálafræði. Eru leiðtogar þjóðarinnar heilsteyptir persónuleikar að gera sitt besta eða klofnir persónuleikar sem sveiflast milli skoðana eftir því hvaða titil þeir hafa? Eru pólitíkusar í eðli sínu leikarar sem láta stjórnast af hlutverkinu?

Steingrímur var betri í neikvæða haminum. Þar fór maður sem hafði gagnrýna hugsun og stjórnarandstaða var honum í blóð borin. Ef við hefðum vitað að ráðherrastóllinn ylli tvöföldum persónuleika þá hefðu kjósendur hafnað Steingrími að heilsufarsástæðum. Hvern hefði grunað að þessi atorkusami maður væri með opnumynd af ráðherrastól límda innan á fataskápshurðina niðrí þingi öll þessi ár.

Ég vil fá Steingrím aftur í stjórnarandstöðu til að berjast gegn IceSave. Ég vil fá hann aftur í stjórnarandstöðu til að hrista upp í embættismannakerfinu og öðru sem miður hefur farið. Mér líst ekkert á þennan nýja Steingrím. Við höfum haft ótal slíka í ráðherrastólum í gegnum árin - menn sem ekki hlusta og vita allt betur en allir hinir - og þess vegna fór sem fór. 

 


mbl.is „Ekkert mál hentar betur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BB fær FF í einkunn

Þegar maður skoðar ástand réttarkerfisins eftir viðskil Björns Bjarnasonar þá sést að þar fór óhæfur maður með málaflokk sem hann hafði ekki hundsvit á. 

Efnahagsbrotadeild var bæði fjársvelt og vanmönnuð og Baugsmálið tók alla þeirra orku og vit árum saman. Á meðan var fátt annað rannsakað og ótöldum kærendum vísað frá og ráðlagt að fara í einkamál. Gott fyrir BB enda staðfesting á að Ísland væri sannanlega óspilltasta land í heimi.

Enginn lærdómur var dreginn af erlendri baráttu við hvítflipaglæpi, peningaþvott, hlutabréfasvik, og annað mein sem hlaut að fylgja útrásinni og bankavextinum. Núna er það viðurkennd staðreynd að Ísland var frjósamur jarðvegur fyrir allt þetta og meira til. Skyldi yfirmaður dómsmála í landinu ekki hafa pælt í þessum málaflokk? Var hann vanhæfur eða var honum bara sama? 

Hvað með endurmenntun dómara sem enga reynslu höfðu af flóknum skatta- eða auðgunarglæpum sem hlutu að fara vaxandi eins og þjóðfélagið var að breytast? Öll slík mál eru ómenntuðum dómurum prófmál ef þau þá komast frá rannsóknarstigi yfir á dómstigið yfirleitt. 

Æ, hvernig læt ég? Meðan ekkert var rannsakað þá var náttúrulega engin þörf á að saksækja eða dæma fjárglæframenn. Málið leyst með BB aðferðinni og Ísland áfram óspilltasta land í heimi.

Já, það er hægt að spara stórt í fangelsismálum með því að halda rannsóknar og réttarkerfinu í skefjum. Þá virkar líka allt svo hreint og fellt og dómsmálaráðherrann lítur vel út. Ný og endurbætt fangelsi komast ekki einu sinni á teikniborðið nema sem glasamotta undir kaffibolla þegar BB lét sig dreyma um að stofna íslenskan her eða eitthvað álíka ga-ga. 

Kveikjan að þessu bloggi var einmitt frétt á ruv.is sem staðfestir fyrirhyggjuleysi BB í fangelsismálum.

Það er gott að vera vitur eftirá. Vanhæfni BB er eins og rauður þráður í gegnum útrásarsöguna og bankahrunið og aðgerðaleysið hróplegt.  Við sjáum það best í samanburði við núverandi dómsmálaráðherra virðist koma meiru í verk í hverri vinnuviku en BB tókst á heilu kjörtímabili. Vonandi fær hún að vinnufrið frá pólitíkusum í nokkur misseri í viðbót.


Verklagsreglum Davíðs haldið til "Haga"

Vandamál þjóðarinnar virðist nú sem fyrr eiga uppruna sinn í verklagsreglum og villuráfandi siðferðiskompás þeirra sem stjórna. Davíð gat farið framhjá heilbrigðri skynsemi, nefndum og ráðum þegar hann úthlutaði gömlu ríkisbönkunum til "réttra manna"  í denn. Þeir sem stjórna "björgunaraðgerðum" bankanna og atvinnulífsins nú nota sömu verklagsreglur. Aftur er verið að tryggja að réttir menn fái verðmætin á silfurfati.

Einhver vitur maður (eða var það kona) sagði að lýðræðisþjóðir fengu ávallt þá stjórn sem þær eiga skilið. Kjósendur settu Dabba og kó í þá aðstöðu að þeim tókst eftirlits- og athugasemdalaust að "einkavinavæða" bankakerfið. Nú höfum við kosið yfir okkur ríkisstjórn sem setur björgunarliði efnahagslífsins sömu verkreglur. Nú á aftur að útbýta þjóðarverðmætum eftir pólitískri forskrift kunningjasamfélagsins og sömu stikkorð eru höfð á lofti: traust, reynsla, góðir stjórnendur...

En ef almenningur vill sameinast um kaup á Högum þá er fyrirtækið einfaldlega ekki til sölu. Sem sagt, sama sagan og þegar Landsbanki og Búnaðarbanki voru seldir.

Hefur ekkert breyst? Höfum við ekkert lært? Forsendurnar fyrir "einkavinavæðingunni" að þessu sinni eru, skv mbl.is; "...vísuðu stjórnendur bankans í verklagsreglur, þar sem segir að að áframhaldandi þátttaka eigenda og stjórnenda byggist á því að þeir njóti trausts og þyki mikilvægir fyrir framtíð fyrirtækisins." 

Þeir sem treysta Baugsklíkunni, vinsamlega réttið upp hönd! Skoðið svo bloggfærslu Jóns Geralds Sullenbergers og nýjasta myndbandið hans. Það er fróðlegt innskot í þessu samhengi.

- - - 

PS. Nú er að sjá hvort þessi færsla fær að standa eða hvort henni verður fyrirkomið í skúmaskoti bloggheima þegar sjálfur ritsjóri Morgunblaðsins er hér nafngreindur sem höfundur hinna síðari móðuharðinda. 

 


mbl.is Hlutur í Högum ekki til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ha, vann Kaupþing söngvakeppni?

Íslensku bankarnir náðu þvílíkum árangri í útlöndum með fagurgala um eigið ágæti. Það má segja að útrásarbankarnir hafi unnið söngvakeppni hrunadansins og verðlaunaféð var lagt inn á æseiv og aðra háávöxtunarreikninga. Eftirfarandi tilvitnun í frétt á visir.is um nýtt nafn Kaupþings, Arion, er því sannmæli um eftirleikinn:

"Arion er helst frægur í grískum goðsögnum fyrir að hafa verið handsamaður af sjóræningjum eftir að hann sigraði tónlistarkeppni á Sikiley. Sjóræningjarnir ásældust vinningsféð hans.

Honum voru gefnir tveir kostir, að fremja sjálfsmorð og vera grafinn með viðeigandi athöfn á landi. Eða vera myrtur á hafi úti og kastað í sjóinn.

Arion keypti sér tíma með því að spila lag fyrir sjóræningjana. Á meðan flykktust höfrungar að vegna tónlistarinnar. Arion stökk þá út í sjóinn og komst á land aftur með aðstoð höfrunganna."

Eins og tíðkast í grískum sögum þá er líkingamálið aðalatriðið. Nú er bara að sjá hvort höfrungarnir séu AGS eða Dabbi eða Jolie eða...??


"við" gegn "þeim"

Séð héðan úr fjölmenninu í Kaliforníu þá er íslenskur veruleiki stundum eins og lélegur farsi enda er hagsmunapotið og þurftafrekjan eins og þéttofið plott í Hollivískri stórslysamynd.

Já, ég er að tala um íslenska landsmálapólitík og hugtakið "við" gegn "þeim".   

Ennþá er til fólk sem finnst réttlátt að tíu atkvæði af mölinni eigi að jafngilda einu atkvæði úr sveit. Af hverju? Jú, malarbúum er ekki treystandi fyrir hagsmunum landsbyggðarinnar. Þú þarf ekki nema snert af framsóknarmennsku til að vita að ef malarbúar réðu ferðinni þá yrðu ekki byggðir vegir, boruð göng, dýpkaðar hafnir eða reist sjúkrahús. "Þeir" myndu nota peningana í annað og landsbyggðin legðist í eyði.

Misvægi atkvæða hefur alltaf verið leikregla númer eitt í íslenskri pólitík. Í skjóli misvægisins þrífst einskonar spilling sem orsakar að hugtakið "við" gegn "þeim" verður óumdeild staðreynd. Ef þingmaður af mölinni var/er á móti vegarspotta á útkjálkaskeri þá var hann á móti landsbyggðinni. Alþingi var vettvangur hrepparígs og hrossakaupa þegar kom að framkvæmdum. Ráðherraskipan eftir kosningar líka. Rígurinn sannaði fyrir þátttakendur að ekki var þorandi að breyta kjördæmaskipan - hvað myndi gerast ef "þeir" fengju að ráða og "við" ekki.

Vúff, sannur íslendingur þorir varla að hugsa þá hugsun til enda.

Vísir punktur is ympraði á viðvarandi hagsmunapoti landsbyggðaráðherra og Kastljós líka.  Kannski mbl.is taki málið fyrir á morgun...

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband