Færsluflokkur: Löggæsla

Svona verður trúnaðarbresturinn til

Merkilegt nokk þá nýtur íslenska lögreglan enn trausts þó upp hafi komið mál sem sýna að samtryggingarkerfi þeirra lifir góðu lífi. Fyrr eða síðar mun fólki ofbjóða - við höfum þá sömu reynslu erlendis þegar dómskerfið og lögreglan sameinast við hvítþvott þeirra síðarnefndu. Eftir það er á brattann að sækja við að byggja upp glatað traust. Umburðarlyndi Íslendinga gagnvart lögreglunni jaðrar við fábjánahátt, sbr. t.d. Geirfinns og Guðmundarmálið, og fleiri mál sem eru minna þekkt en eru engu að síður út út kortinu.

Skoðum einkenni samtrygginga: Lögreglumenn veigra sér við að vitna gegn hvor öðrum, þeir tilkynna sjaldan eða aldrei lögregluofbeldi, þeir neita staðreyndum jafnvel þó myndbandsupptökur sýni hvað gerðist.

Í þessu tiltekna "mannránsmáli" (já, ég kalla þetta réttu nafni því ef ég hefði tekið manninn svona lögreglutökum og flutt nauðugan útá Granda þá væri ég sekur um mannrán) þá misstu nærstaddir lögreglumenn minnið þegar kom að því að útskýra atburðarásina. Hmm, var það samtryggingin að verki?

En það sem alvarlegra er, er að undirréttur og hæstiréttur komust að ólíkri niðurstöðu yfir sömu staðreyndum - þ.e. að maður hafi verið brottnuminn af lögreglunni á skjön við verkreglur og lögreglusamþykkt. Þessir tveir andstæðu dómar segir okkur að venjulegt fólk getur ekki reitt sig á undirrétt. Dómskerfið er hlutdrægt. Sem sagt, skjaldborgin góða nær út fyrir raðir lögreglunnar enda verða dómarar að trúa á þessa stétt sem færir þeim "sannleikann" á færibandi í sakamálum sem koma fyrir réttinn.

Íslenska lögreglan gæti lært af samtryggingarmistökum lögreglu erlendis. Þar hafa menn reynt að slá skjaldborg um svörtu sauðina í stað þess að leysa þá frá störfum meðan "álitamál" eru rannsökuð. Skjaldborgin hefur haft hryllilegar afleiðingar. Ef íslenska lögreglan tekur ekki á svona málum í dag þá fær lögreglan á sig varanlega ímynd sem sjálfshollur lygari og óvinur fólksins. Þá verða öll vafamál metin lögreglunni í óhag. Glæpamenn verða trúverðugri en lögreglan.

Um afleiðingar þess að halda uppi samtryggingarkerfi lögreglu, sjá eftirfarandi netlinka:

http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_cases_of_police_brutality

og

http://brainz.org/30-cases-extreme-police-brutality-and-blatant-misconduct/


mbl.is Engar forsendur til brottvikningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sönnunarkvöð ákæruvaldsins um afrakstur fíkniefnasölu er djók!

Um daginn kvað hæstiréttur upp dóm yfir dópsölum sem áttu nokkrar milljónir undir koddanum. Ákæruvaldinu var gert að sanna að féð væri afrakstur fíkniefnasölu en það tókst ekki og ákærðu fengu að halda fénu. Nei, þetta er ekki brandari. Þetta er íslenskur raunveruleiki.

Í eðlilegu réttarríki væri sönnunarbyrðin dópsalans. Hann/hún yrði að sanna að féð væri fengið með löglegum hætti og alls óskylt fíkniefnasölu, framleiðslu, geymslu, eða ólöglegri starfsemi yfirleitt. Og ef viðkomandi ætti féð löglega þá ætti hann/hún líka á hættu að það yrði gert upptækt í sekt fyrir fíkniefnabrotið.

Í USA eru allar eignir fíkniefnasala gerðar upptækar meira að segja þær eignir sem þeir eru með í láni eða hús sem þeir stunda fíkniefnasölu í með vitund eiganda.

Dópið étur þjóðfélagið innan frá. Af hverju er íslenska dómskerfið svona lamað þegar kemur að þessum ófögnuði?


mbl.is Fimmti maðurinn handtekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrotabú Apple-umboðsins og spillt embættismannakerfi

Uppgufaður viðgerðasjóður er ekki eina skítamálið því skipti þrotabús Apple-umboðsins voru tilefni til sakamálarannsóknar vegna brota á gjaldþrotalögum, samkvæmt umsögn fulltrúa dómsmálaráðuneytisins. Málið var að skiptaráðandi Apple "gaf" vildarvini sínum nánast allar eignir búsins með svokölluðum skuldajöfnunarsamningi. Aðrir kröfuhafar fengu eftir því sem ég best veit ekki neitt úr búinu.

En þetta var ekki nema hálft skítamálið. Til að gjafagjörningurinn yrði vildarvininum ekki of mikil byrði í sköttum og afleiddum gjöldum þá bókfærðu þeir kollegarnir niður andvirði hans úr ca 14 milljónum í tvær.

Hvernig er þetta hægt án þess að einhver opinber eftirlitsaðili geri athugasemd? Jú, skiptaráðandi er bæði allsráðandi og eftirlitslaus embættismaður samkvæmt íslenskum lögum. Hann getur gert það sem honum sýnist með eignir þrotabús og þarf ekki að svara fyrir neitt.

Fulltrúi dómsmálaráðuneytis sem las gögn málsins sá engin ráð þar á bæ. Hann ráðlagði að kæra skiptaráðandann fyrir brot á hegningar- og gjaldþrotalögum. Efnahagsbrotadeildin var heltekin af Baugsmálinu á þessum tíma og ráðlagði að fara í einkamál - sem er víst viðkvæðið þar á bæ því hvítflipaglæpir krefjast yfirlegu og gagnrýnnar hugsunar.

Einkamálaleiðin var farin og viti menn - skiptaráðandi neitaði að útskýra gjafagjörninginn og afsláttinn. Honum var stefnt fyrir héraðsdóm Reykjavíkur og krafinn skýringa undir eið en þá hafði hann því miður "misst minnið". Dómarinn sýndi minnisleysinu óvenjulega mikinn skilning. Skiptaráðandinn steig niður úr vitnastúkunni og málið endaði í pattstöðu.

Kannski var skýringin á sinnuleysi dómarans sú að vildarvinurinn sem fékk verðmætin var fyrrum héraðsdómari og kennari við lagadeild Háskólans? Ég held að það sé ekki sama hvort það sé Jón eða séra Jón sem í hlut eiga, þó dómara sé skylt að tilkynna lögreglu um lögbrot sem þeir verða varir við í starfi sínu. Séra Jón og skiptaráðandi eru og verða áfram stikkfrí - og þegar ekkert er rannsakað er Ísland áfram óspilltasta land í heimi.

Þessa dagana er annar hver lögfræðingur að sinna skiptastörfum eða sækja á þrotabú og heimta greiðslu eða skuldajöfnun. Er ekki kominn tími til að setja ný lög og reglur um gjaldþrotaskipti og úthlutun verðmæta úr þrotabúum?


mbl.is Tæmdu viðgerðasjóð áður en félagið fór í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óflokksbundinn ráðherra vs erfðaprins Sjálfstæðisflokksins

Ég hef sagt þetta margoft áður en aldrei er góð vísa of oft kveðin: Núverandi dómsmálaráðherra kemur meiru í verk á einni vinnuviku en forveri hennar Björn Bjarnason á heilu kjörtímabili. Ef sá maður hefði bara sýnt örlítin metnað í starfi þá væri margt öðruvísi á Íslandi í dag.
mbl.is Aðskilnaður lögreglu og sýslumanna fyrsta verk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munurinn á handtöku og mannráni

Já, litla Ísland er undarlegt land. Ef lögreglan hér í Los Angeles hefði hagað sér eins og þessi íslenska lögga (og það lögregluskólakennari skilst mér) þá hefði dómurinn farið öðruvísi.

Í fyrsta lagi þá var ólátabelgurinn ekki handtekinn. Hann var tekinn upp í bíl gegn vilja sínum og síðan ekið með hann þangað sem hann vildi ekki fara og hann skilinn eftir. Í bíltúrnum er honum haldið niðri með fullum líkamsþunga lögreglumannsins sem er ekkert annað en ofbeldi. Maðurinn er með áverkavottorð eftir þessi samskipti við lögregluna en sjálfur beitti hann ekki ofbeldi heldur reif bara kjaft. Hvað ef maðurinn hefði varið sig? Hafði hann rétt til þess eða átti hann bara að hlýða?

Ef þetta var ekki mannrán og frelsissvipting, hvernig skilgreina íslensk lög þá mannrán? Maðurinn var EKKI handtekinn og það er EKKERT í bókum lögreglunnar um atvikið. Þá var þetta varla lögregluaðgerð, eða hvað? Má hver sem er gera þetta við ólátabelgi?

Ég er viss um að ef ég eða þú, sem ekki erum lögreglumenn/konur, hefðum tekið ólátabelginn og ekið með hann nauðugan um bæinn, hnoðast ofan á honum svo stór sá á manninum, og hent honum út úr bílnum þar sem við viljum losna við hann, þá væri það mannrán - hér í Ameríku, þ.e.a.s. En á Íslandi? Well, it depends...

Ef íslenska löggan má þetta af hverju megum við hin þá ekki gera slíkt hið sama, t.d. ef okkur líkar ekki hegðun gestsins á næsta borði? Hver er munurinn? Kannski hliðhollir dómstólar? Fengi ég ákæru? Yrði ég dæmdur? Eru ekki allir jafnir fyrir lögunum? Hmm...

Hér í Los Angeles hefði lögreglan aldrei gert neitt þessu líkt. Hér hefði ólátabelgurinn fengið bætur og ef atvkið væri ekki skráð í lögreglubækur hér þá hefðu lögreglumenn verið reknir. Hér hafa menn lært að lögregluofbeldi veldur samfélagsskaða og trúnaðarbresti - en það var ekki alltaf þannig. Sem dæmi má nefna Rodney King sem lögreglan barði eftir eltingaleik hér um árið en hann fékk 4 milljónir dollara í bætur fyrir lögregluofbeldið. Lögreglan neitaði barsmíðunum (þrátt fyrir myndbandsupptöku), og þeir voru ákærðir og sýknaðir, rétt eins og íslensku lögreglumennirnir hér. Þá urðu mestu uppþot í sögu borgarinnar enda fólk búið að fá nóg af lögguhollustu dómstóla - en á Íslandi yppta menn bara öxlum.

http://en.wikipedia.org/wiki/Rodney_King


mbl.is Lögreglumaður sýknaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bætum allt nema "tjón"

Skrítið að meðan tryggingafélög ýmist hafa "ekki efni á" að hækka bótaskalann eða þreyta tjónþola með samningaþófi eða neyða þá til að fara dómstólaleiðina - þá hafa tryggingafélögin "efni á" að fjárfesta milljarða úti í heimi og/eða borga eigendum sínum milljarða í ofurarð.

Í lok þessarar fréttar er algeng rökfærsla tryggingafélaga - en fyrirsögn málsgreinarinnar í tryggingaskilmálunum bíleigandans ætti að vera "tryggingafélagið bætir allt nema tjón" því undantekningarnar og frávikin eru ávallt þeim í hag. Hér er setningin úr fréttinni en feitletrun er mín: "Bifreiðin er kaskótryggð en þrátt fyrir það er alls óvíst að eigandinn fái tjón sitt bætt. Forsvarsmenn þeirra tryggingafélaga sem leitað var til gátu ekki tjáð sig um einstök tilvik en staðfestu það sem fram kemur í skilmálum."

Sem sagt, það er alveg sama þó einhver steli bílnum þínum, - ef hann var ekki hlekkjaður niður í malbikið, harðlæstur og ógangfær meðan þú dældir bensíni á tankinn og fórst inn að borga - þá er tryggingafélagið stikkfrí. Skilmálarnir eru alltaf tryggingafélaginu í hag og með kerfið í sinni þjónustu þurfa þeir að borga smánarlega lítið út til tjónþola og eftir situr vænn sjóður sem hreinn hagnaður.

Og í hvað er þessi hagnaður nýttur? Síðustu vikur höfum við fengið að vita að iðgjöldin okkar í áranna rás voru notuð til að hygla glæpamönnum með "ofurarði" eða í fasteignabrask hinum megin á hnettinum í von um meiri ofurarð. Aldrei var rúm til að hækka bætur eða rýmka tryggingaskilmálana.

Samvinnuhreyfingin mótaði tryggingakerfið á sínum tíma og pólitíkusar voru báðum megin við borðið þegar alþingi og ráðherrar mótuðu lög og reglur og bótastatistík. Í áratugi hafa tryggingafélögin sungið sama harmakveinið og stjórnmálamenn hafa sett reglugerðir og lög eftir þeirra forskrift. Ástkæra, óspillta Ísland. Foj bara!

Auðvitað átti bíleigandinn að taka lyklana, bílstjórasætið og bílvélina inn með sér til að borga bensínreikninginn - en eflaust hefðu tryggingaskilmálarnir séð við þeim varnagla og fundið aðra ástæðu til að losna við að borga tjónið...


mbl.is Mismunandi eftir tryggingafélögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Win-win" valkosturinn

Maður hefur heyrt svo margar "óspillingarsögur" og "hvítþvottafréttir" úr munni íslenskra embættismanna að það jaðrar við faraldur. Nýjasta nýtt er þessi frétt þar sem utanríkisráðuneytið heldur því fram að íselnsk viðskiptalöggjöf sé í samræmi við EES og heimsbyggðinni til fyrirmyndar. Hvaða máli skiptir það þegar eftirfylgnin er engin?

Þegar stjórnkerfið í heild sinni, Fjármálaeftirlitið, Seðlabanki, efnahagsbrotadeild lögreglunnar, etc., eru sannfærðir um að það sé engin spilling á Íslandi - og skirrast við að láta rannsaka spillingu af því hún er ekki til - þá skapast aðstæður eins og giltu á Íslandi fram að bankahruninu. M.ö.o. Ísland er og verður áfram óspilltasta land í heimi.

Hvernig höfum við sannfærst um að Ísland væri óspillt land?

1. Jú, ef efhahagsbrotadeild hafnar nánast átomatískt kærum enda fjárvana og bara með 13 starfsmenn.  Mér hefur virst að helstu viðbrögð deildarinnar séu að segja fólki að höfða bara einkamál sem er aðferð til að losna undan rannsóknarkvöð.

2. Sú staðreynd að réttarkerfið sendir nánast öll stærri mál aftur til rannsóknaraðila útaf fúski efnahagsbrotadeildar verður til þess að fá mál klárast eins og lagt var af stað með þau í upphafi og eftir sitja smáatriði, oft 5-10% af upprunalega sakarefninu. Sem sagt, lítil spilling með sannalegum hætti.

Svo má vísa í kannanir sem sýna hversu óspillt Ísland er. Ein helsta könnunin kom okkur efst á lista yfir óspilltustu ríki heims og viðhélt sjálfsblekkingunni fram að bankahruni og jafnvel lengur hjá þeim sem enga sjálfsrýni hafa. Umrædd könnun var framkvæmd meðal íslenskra embættismanna. Þetta voru alls 12 spurningar, minnir mig, en þar af pössuðu bara 7 við íslenskar aðstæður og því var hinum 5 sleppt. Af þeim 7 sem eftir stóðu voru 6 um mútugreiðslur til íslenskra embættismanna (ekki frændsemisgreiða eða pólitíska einkavinavæðingu, nota bene) og íslensku embættismennirnir svöruðu þeim spurningum neitandi. Síðasta spurningin var annars eðlis og jákvæð svör fengust hjá embættismannaúrtakinu líka þar. Einkun Íslands var A plús og við gátum hrósað hvort öðru fyrir að búa í óspilltasta landi heims.

Nú vita allir að fémútur til embættismanna eru fátíðar á Íslandi og þá getur fólk sagt sér sjálft hversu marktæk þessi könnun var. En vá hvað hún er góð landkynning!

Nú bera embættismenn utanríkisráðuneytis enn eina sjálfsblekkinguna á borð fyrir landsmenn. Enn er verið að hamra á því að Ísland sé sannanlega óspilltasta land í heimi. Hinn kosturinn er óhugsandi enda sjálfsmynd kerfisins og traust heimsbyggðarinnar í húfi. Áframhaldandi sjálfsblekking er svokallaður "win-win" valkostur fyrir þjóð sem þorir ekki að horfast í augu við sannleikann.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband