11.2.2010 | 15:33
Munurinn á handtöku og mannráni
Já, litla Ísland er undarlegt land. Ef lögreglan hér í Los Angeles hefði hagað sér eins og þessi íslenska lögga (og það lögregluskólakennari skilst mér) þá hefði dómurinn farið öðruvísi.
Í fyrsta lagi þá var ólátabelgurinn ekki handtekinn. Hann var tekinn upp í bíl gegn vilja sínum og síðan ekið með hann þangað sem hann vildi ekki fara og hann skilinn eftir. Í bíltúrnum er honum haldið niðri með fullum líkamsþunga lögreglumannsins sem er ekkert annað en ofbeldi. Maðurinn er með áverkavottorð eftir þessi samskipti við lögregluna en sjálfur beitti hann ekki ofbeldi heldur reif bara kjaft. Hvað ef maðurinn hefði varið sig? Hafði hann rétt til þess eða átti hann bara að hlýða?
Ef þetta var ekki mannrán og frelsissvipting, hvernig skilgreina íslensk lög þá mannrán? Maðurinn var EKKI handtekinn og það er EKKERT í bókum lögreglunnar um atvikið. Þá var þetta varla lögregluaðgerð, eða hvað? Má hver sem er gera þetta við ólátabelgi?
Ég er viss um að ef ég eða þú, sem ekki erum lögreglumenn/konur, hefðum tekið ólátabelginn og ekið með hann nauðugan um bæinn, hnoðast ofan á honum svo stór sá á manninum, og hent honum út úr bílnum þar sem við viljum losna við hann, þá væri það mannrán - hér í Ameríku, þ.e.a.s. En á Íslandi? Well, it depends...
Ef íslenska löggan má þetta af hverju megum við hin þá ekki gera slíkt hið sama, t.d. ef okkur líkar ekki hegðun gestsins á næsta borði? Hver er munurinn? Kannski hliðhollir dómstólar? Fengi ég ákæru? Yrði ég dæmdur? Eru ekki allir jafnir fyrir lögunum? Hmm...
Hér í Los Angeles hefði lögreglan aldrei gert neitt þessu líkt. Hér hefði ólátabelgurinn fengið bætur og ef atvkið væri ekki skráð í lögreglubækur hér þá hefðu lögreglumenn verið reknir. Hér hafa menn lært að lögregluofbeldi veldur samfélagsskaða og trúnaðarbresti - en það var ekki alltaf þannig. Sem dæmi má nefna Rodney King sem lögreglan barði eftir eltingaleik hér um árið en hann fékk 4 milljónir dollara í bætur fyrir lögregluofbeldið. Lögreglan neitaði barsmíðunum (þrátt fyrir myndbandsupptöku), og þeir voru ákærðir og sýknaðir, rétt eins og íslensku lögreglumennirnir hér. Þá urðu mestu uppþot í sögu borgarinnar enda fólk búið að fá nóg af lögguhollustu dómstóla - en á Íslandi yppta menn bara öxlum.
http://en.wikipedia.org/wiki/Rodney_King
Lögreglumaður sýknaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nú kemur fram í fréttinni að vitni hafi lýst hegðun þessa tiltekna manns (hins meinta fórnarlambs) sem truflandi og ógnandi.
Þú vilt sem sagt meina að lögreglan í LA hefði bara beðið hann kurteislega að hafa sig hægan, en ef hann hefði ekki sinnt því hefðu þeir t.d. aldrei freistast til að beita Tazer byssunni á hann með hugsanlega banvænum afleiðingum m.v. ástand mannsins? Vissulega hefðu þeir væntanlega fært nöfn hans í handtökuskýrslu, en þó varla fyrr en daginn eftir, þegar hann væri nokkurn veginn búinn að ná sér eftir Tazer stuðið. Ég veit ekki alveg hvort íslenska lögreglan kæmi nokkuð illa út úr samanburði við LA lögregluna, en vissulega má gagnrýna þá staðreynd að þeir handtóku manninn ekki formlega. En æ, ég veit það ekki. Þetta er einhvern veginn ekki stórt mál í mínum huga og skömmin fyrst og fremst hjá þessu strákgreyi sem ekki gat hamið sig.
Hefðu þeir handtekið manninn, má líka velta fyrir sér hvort hann hefði orðið sáttari við þá meðferð eftir að hafa þá líka þurft að sæta t.d. varðhaldi yfir nóttina og sekt fyrir athæfi sitt. í því tilfelli hefði aldrei verið hægt að efast um réttmæti aðgerðar lögreglunnar, því til þessa hefur hún jú heimild, ekki satt?
En ef maður er ekki á staðnum, þá getur maður varla dæmt í svona máli.
Karl Ólafsson, 11.2.2010 kl. 15:50
Tek undir vangaveltur þínar Jón. Þetta er furðuleg löggæsla.
Ólafur Eiríksson, 11.2.2010 kl. 16:00
Lögreglan í LA hefði annað hvort tekið manninn fastann eða ekki. Þeir hefðu ekki notað suður-amerísku aðferðina eins og íslenska löggan. N.b. allt sem lögreglan gerir á vakt á að vera skráð. annars er það ekki lögregluaðgerð. Þetta mál kemur tazer notkun ekkert við, en ef löggan hefði notað tazer á mann sem rífur kjaft þá væri það óréttmæt tazer notkun.
Jón Ármann Steinsson, 11.2.2010 kl. 16:05
Þetta er viðbjóðsleg misnotkun á valdbeitingarheimildum þeirra.
Ef almennur borgari heldur hurð lokaðri og hindrar þannig annan aðilla í að yfirgefa byggingu þá er það tilefni til ákæru vegna frelsissviptingar, en mannrán af þessu lagi sleppur stikkfrítt í gegnum réttarkerfið. Segir allt sem segir þarf um okkar laga- og réttarkerfi.
Auðunn Kristbjörnsson (IP-tala skráð) 11.2.2010 kl. 17:41
Úr dómsorði: Fyrir liggur í málinu að lögreglumennirnir sem kallaðir voru að skemmtistaðnum Apótekinu í það sinn sem um ræðir voru þar í brýnum erindum. Vitnin í málinu bera það einum rómi að Edward Alexander hafi þvælst ölóður fyrir lögreglumönnunum þar fyrir utan og hindrað störf þeirra. Fram er komið í málinu að um helgar þurfi lögreglan oft að neyta þess úrræðis að flytja vandræðamenn úr miðbænum í Reykjavík og sleppa þeim á öðrum stað eftir stuttan akstur til þess að afstýra frekari vandræðum. Hlýtur það óhjákvæmilega að hafa það í för með sér að viðkomandi er sviptur frelsi sínu um stund, m.ö.o. handtekinn, sbr. orðalagið „fjarlægja fólk“ í 2. mgr. 15. gr. lögreglulaga. Dómurinn álítur slíkar aðgerðir rúmast innan þeirra heimilda sem lögregla hefur samkvæmt 1. og 2. mgr. 15. gr. lögreglulaga.
Í miðbæ Reykjavíkur um helgar eru allir „lögfræðingar“ og greinilega á fleiri stöðum og tímum líka. Ég hvet fólk til að kynna sér mál áður en það dæmir allt og alla.
SRS (IP-tala skráð) 11.2.2010 kl. 18:20
Ekki að dæma en þessi vinnubrögð lögreglunar eru þó vægt sé til orða tekið furðuleg.
Sigurður Haraldsson, 11.2.2010 kl. 19:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.