13.12.2007 | 18:40
forréttindaþjóðin ísland og bandarísk lög...
Ég leyfi mér að fullyrða að innflytjendalög USA eru mun sanngjarnari en innflytjendalög á Íslandi. Þetta Elru Óskar mál er ekki einu sinni fréttnæmt enda er greinilega bara hálf sagan sögð. Venjulegt hugsandi fólk hefði kynnt sér hvað bar að gera til að fá að koma aftur til USA eftir að hafa brotið innflytjendalögin.
Kjarninn í þessum fréttaflutningi er hversu ósanngjarnir landamæraverðirnir voru hleypa ekki konu inn í landið. Og að meðferðin hafi verið ómanneskjuleg á meðan hún beið eftir næstu flugvél heim aftur.
Ég þekki aðeins til þessara mála þar sem ég er að vinna heimildarmynd um innflytjendamál USA og hef skoðað hundruð af svipuðum málum. Handjárn eru eftir því sem ég best ekki notuð nema fólk sé með einhver læti eða líklegt til að skaða sjálft sig. Eflaust hefur konunni brugðið við að vera vísað úr landi og viðbrögðin eftir því. Kannski hafa þeir fundið vínlykt líka en hún segist hafa drukkið eiitt hvítvínsglas í flugvélinni. Svo er það 14 klst biðin án matar og drykkjar. Ein aðferð sem þeir nota er að leyfa fólki að "cool down" og láta það afskiptalaust á meðan.
Já, hér er ekki allt sem sýnist...
Forsendurnar fyrir þessari "frétt" eru bull. AÐ ætla að vaða í gegnum vegabréfaskoðun á "íslenskum forréttindum" einum saman er bara bull og að ætla að krefjast afsökunar á framkomu landamæravarða án þess að hafa alla söguna er enn verra bull. Utanríkisráðherra ætti að athuga sinn gang áður en hún fer í þann slag.
Mun krefjast afsökunarbeiðni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Kvikmyndir | Aukaflokkar: Dægurmál, Menning og listir, Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 18:41 | Facebook
Athugasemdir
Undarlegt að ég sé að fara að bera blak af Ingibjörgu Sólrúnu, en ...
„Ég leyfi mér að fullyrða að innflytjendalög USA eru mun sanngjarnari en innflytjendalög á Íslandi.“
Það kemur málinu ekkert við (þótt það sé verðugur skandall að taka fyrir líka, ef satt er). Framkoman sem um ræðir er varla fyrirskipuð í lögum, og raunar líklega (vonandi) bönnuð, ef ekki með beinum lögum þá sannarlega með meðalhófsreglu. Konan hefur tekið skýrt fram að hún kvarti ekki undan brottvísuninni, aðeins framkomunni á meðan. Krafan um afsökunarbeiðni hlýtur að vera í samræmi við það.
En jafnvel þótt það kæmi málinu við, þ.e. þótt íslensk yfirvöld kæmu jafnilla fram við meinlaust fólk með 12 ára gamlan tittlingaskít að baki, þá væri það bara Íslandi til skammar, ekki Bandaríkjunum til afbötunar. Þá væri líka um að gera að það kæmi fram, svo að eitthvað fengist gert í því.
„Venjulegt hugsandi fólk hefði kynnt sér hvað bar að gera til að fá að koma aftur til USA eftir að hafa brotið innflytjendalögin.“
Það kemur heldur ekki málinu við. Konan hefur tekið skýrt fram að hún amast ekki við brottvísuninni heldur við framkomunni á meðan.
En jafnvel þótt það kæmi málinu við ... þá var þetta árið 1995 og hún var búin að koma til Bandaríkjanna síðan. Ætti þetta venjulega hugsandi fólk að gá í hvert sinn, hvort mál sem yfirvöld hafa áður kært sig kollótt um séu allt í einu farin að skipta máli aftur, 12 árum síðar?
„Kannski hafa þeir fundið vínlykt líka ...“
Já, biddu fyrir þér ... eitt hvítvínsglas er nú yfrið næg ástæða til að svelta fólk og neita um vatn í 14 klst. Þessi rök eru þér til minnkunar.
„Svo er það 14 klst biðin án matar og drykkjar. Ein aðferð sem þeir nota er að leyfa fólki að "cool down" og láta það afskiptalaust á meðan.“
Já iss, og ég sem hélt að það væri eitthvað athugavert við þetta. En þetta var þá bara „ein aðferð sem þeir nota.“ Þá horfir málið allt öðru vísi við! Kjáni gat ég verið. Svo má náttúrulega afsaka u.þ.b. hvað sem er með sömu rökum. Frelsissvipting án dóms og laga í Guantanamo Bay er náttúrulega bara „ein aðferð sem þeir nota.“ Búið mál. Þetta er mjög praktískt og vinnusparandi.
Og „forréttindaþjóðin Ísland“ hefur ekkert með þetta að gera heldur. Svona framkomu á ekki að líða, óháð þjóðerni. Þjóðerni þessarar konu breytir því einu að þetta hefði ekki vakið athygli á Íslandi ef hún hefði verið annarrar þjóðar (og mögulega ekki vakið neina athygli yfirleitt, ef ríki hennar hefði skeytt eins lítið um meðalhóf og þér virðist þykja tilhlýðilegt). Það er varla hægt að kenna íslenskum stjórnvöldum um það.
Auðvitað skiptir máli að hafa alla söguna, það er rétt. Þó þykist þú geta afgreitt málið sem „bull“ án þess að vita alla söguna. Ég fæ ekki séð að heimildavinna þín fyrir kvikmynd (jafnvel þótt vönduð sé) gefi innistæðu fyrir svo stóryrtri afgreiðslu.
Gunnlaugur Þór Briem, 13.12.2007 kl. 19:24
Auðvitað koma íslensk innflytjendalög málinu við. Getum við ætlast til þess að Bandaríkjamenn séu "mannúðin uppmáluð" ef okkar eigin landamæravarsla er hið gagnstæða? Hvað hefur mörgum útlendingum verið vísað frá íslandi eftir að hafa dúsað í sólarhringa í djeilinu í keflavík fyrir það eitt að hafa ekki vísa. En munurinn er sá að þessi kona braut bandarísk lög. Þó hún hafi sloppið í gegn eftir það þá er það ekki fordæmi né sakaruppgjöf.
jú, íslensk lög og íslensk framkoma gagnvart útlendingum hefur verið til skammar í áratugi. en enginn þeirra hefur haft jafn greiðan aðgang að fjölmiðlum í sínu heimalandi til að kæra meðferðina.
bíðum og sjáum hvernig þessu máli lyktar og upplýsinar liggja fyrir frá stjórnvöldum USA. Gunnlaugur og aðrir áhugamenn um bandaríska landamæravörslu, ég þar á meðal, getum þá fært umræðuna upp á hærra plan frekar en að byggja allt okkar á upplýsingum frá fórnarlambinu sjálfu, Erlu Ósk...
jas
Jón Ármann Steinsson, 13.12.2007 kl. 19:50
Skrítið hjá þér að ganga að því sem nánast vísu að konan sé að ýkja og ekki að segja alla söguna, það er nákvæmlega engin ástæða til að ætla að frásögnin sé ekki trúverðug eða manneskjan sem brotin voru mannréttindi á. Þvert á móti kemur hún vel heim og saman við sífellt fleyri sögur af ónauðsynlegu ofbeldi og niðurlægingu á saklausu fólki, dæmin hrúgast upp og það getur verið ansi dýrkeypt einnig að vera tekinn í misgripum og álika, þá virðist fólk vera sekt þangað til annað sannað sem er náttúrulega bara fáránlegt, hvort sem það er á Íslandi eða í Bandaríkjunum. Maður er alltaf að sjá meðalhófsregluna hafða að litlu oftar og oftar í störfum lögreglunar ´hér á landi...vonandi verður ekki hér á landi haldið í humáttina niður þann dimma stíg sem verið er að marsera í Bandaríkjunum og víða um heim...þá er illa komið fyrir okkur.
Georg P Sveinbjörnsson, 13.12.2007 kl. 21:18
Konan braut lög á sínum tíma og þar sem eftirlit með ferðamönnum til USA hefur aukist til muna þá fannst hún núna við eftirlit en ekki áður. Í USA er það hefð að handteknir aðilar séu í handjárnum, og kannski ekki að ástæðulausu. 14-15 klukkustundir í fangelsi og fékk varla að borða. Fangelsi telst ekki til skyndibitastaða og ekkert óeðlilegt þó að fangi fái ekki mat fyrstu klukkustundirnar. Send til Íslands með fyrstu vél.
Ég fæ ekki séð að Bandaríkjamenn þurfi að biðja einn né neinn afsökunar og tel að Ingibjörg Sólrún hafi farið fram úr sjálfri sér. Nú í haust voru nokkrir aðilar sendir öfugir heim af því að þeir töldust vera félagar í Vítisenglum. Þar var ákveðið að um glæpamenn væri að ræða, þrátt fyrir að hafa ekkert gert af sér hér á landi. Ég keypti þó rök lögreglunnar í því máli og tel að íslensk stjórnvöld verði að kynnar sér rök Bandaríkjanna í máli Erlu Óskar.
Fyrir utan þetta þá tel ég Bandaríkin vera alltof öfgafull í þessum málum en þeir eru þó með sín lög, hvort sem þau eru sanngjörn eða ekki.
Birkir (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 21:53
ÉG
Stefán Karl (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 22:41
Ég ætla að púlla Jesús á þetta og drulla yfir ykkur öll!
Jón Ármann:
"Ég leyfi mér að fullyrða að innflytjendalög USA eru mun sanngjarnari en innflytjendalög á Íslandi."
Líklega rétt, en réttlætir ekki neitt og kemur meðferðinni á þeim sem vilja komast inn í landið, hvort heldur sem túristar eða innflytjendur, ekkert við.
Gunnlaugur Þór:
"...ef ekki með beinum lögum þá sannarlega með meðalhófsreglu
Meðalhófsreglan er hjátrú. Orðið "meðalhóf" er lagalega útgáfan af orðinu "geðþótti", eða á almennri íslensku "það sem [x] sýnist".
Georg: Þú sleppur.
Birkir: "Fangelsi telst ekki til skyndibitastaða og ekkert óeðlilegt þó að fangi fái ekki mat fyrstu klukkustundirnar."
Að fá að borða þýðir ekki að fá óskoraðan rétt að McDonald's stórstjörnumáltíð með extra tómatsósu. Að fá að borða er samkvæmt skilgreiningu mannréttindi.
Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 00:43
Jahér....
Ég hef svo mikið út á skrif þín að setja að ég veit varla hvar skal byrja.
Þú hlýtur að skilja að málið snýst ekki um brottvísunina, málið snýst ekki einu sinni um lögin sem leyfa brottvísun úr landi ef einstaklingur þykir grunsamlegur eða líklegur til glæpsamlegs athæfis. Þetta fjallar um meðferðina sem Erla hlaut.
Braut hún lög segirðu... heimurinn hefur breyst mikið síðan 1995 og Erla hefur víst komið aftur til NY síðan þá. Á að grafa upp það sem þótti ekki tiltökumál fyrir 12 árum síðan og gera það að slíkum glæp að manneskjan á skilið svona meðferð?
Svo voru þeir svona "nice" að leyfa henni að "cool down" eftir 14 tíma svelti í köldum klefa án þess að geta svo lítið sem tilkynnt Sendiráðinu hvað hefði gerst.
Ég efast um að viðbrögð þín við svona meðferð hefðu verið nokkur önnur en einkær skelfing. Eins og málin stóðu fyrir Erlu þá gat hún ekki vitað hvort eða hvenær hún losnaði. Vinir hennar og ættingjar höfðu litla sem enga vitneskju um hana. Hugsaðu þér ef þetta hefði verið barnið þitt.
Hvað öryggisgæslan okkar á Íslandi hefur gert og ekki gert, tengist ekki meðferðinni sem Erla hlaut í Bandaríkjunum. Auðvitað gengur þetta líka í hina áttina. Við viljum síður að brotið sé á fólki á Íslandi.
Hugsaðu bara með þér hvort það hefði ekki verið hægt að framfylgja lögunum öðruvísi en á þennan hátt.
Þú fyrirgefur en mér blöskrar bara svolítið hversu sjálfsagt þér finnst að manneskja sé meðhöndluð á þennan hátt... í alvöru.
En hér takast mjög svo ólíkar skoðanir á. Mjööög ólíkar.
Með vinsemd
Erna
Erna Björk Einarsdóttir (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 01:53
Hárrétt hjá þér, Jón Ármann. Við höfum bara fengið hlið Erlu á málinu og ekkert annað. Það gæti verið að hún hefði fengið móðursýkiskasst þegar hún fékk ekki að fara með vinkonum sínum áfram inn í landið, og því gert allt vitlaust.
Ég hef það á tilfinningunni, að ISG hafi hlaupið sig í þessu máli og hafi verið höfð að fífli. Gæti verið að ISG hafi brugðist svona skjótt við að því að hér væri um konu að ræða? Hefði ISG burgðist svona við hefði það verið kalrmaður sem lent hefði í sömu hremmingum? (Alla vegana er það mín reynsla að fyrrum Kvennalistakonur hafi ekki mikla samúð með karlmönnum).
Kannski er málið ekki svona einfalt eins og Erla gefur til kynna og sannleikurinn komi í ljós?
Er Ísland eitthvað betra hvað mannréttindi varðar? Er fólk búið að gleyma þvagleggsmálinu frá Selfossi? Þar var brotið á mannhelgi konu á svívirðilegan hátt og hún beitt harðræði og niðurlægjandi meðferð af yfirvöldum þegar henni var haldið niðri af lögregluþjónum og þvaglegg var stungið inn í kynfæri hennar. Yfirvöld hér á landi blástimpluðu þetta og gerðu ekkert í málinu undir því yfirskini að viðkomandi kona ók ölvuð. Ekki einu sinni femínistar eða fólk úr hinni skinhelgu Samfylkingu sá ástæðu til að taka málið upp. Alveg sama þó að fólk aki ölvað, þá á það rétt á réttlátri meðhöndlun.
Þorgeir Kristjánsson (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 10:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.