Alvöru bætur, ekki beini hent í hund...

Breiðuvíkurmálið er spegill á samfélagið í dag en ekki bara dæmi um skilningsleysi stjórnvalda fyrir áratugum síðan. Þá lét þjóðfélagið þetta vesalings fólk sig litlu varða - nú í dag láta stjórnmálamenn eins og þetta fólk eigi ekki skilið nema smáaura í bætur. Kannski er þeim ekki treyst fyrir alvöru bótum? Eða er þetta fólk bara svona lítils virði? Ef Geir sjálfur hefði dvalið þarna í æsku, væru bæturnar þá hærri?

Já, Ísland hefur lítið breyst. Embættismannakerfið, dómskerfið og löggjafarvaldið hafa þann leiða vana að líta á fyrirtæki og stofnanir sem rétthærri aðila en einstaklinginn.  Íslensk bótalöggjöf er hneisa enda sniðin að hagsmunum þeirra sem yfirleitt þurfa að leggja út bæturnar en ekki þeirra sem eiga þær skilið.

Nú virðist þessi smánarbótahugsun kerfisins hafa smeygt sér inn í Breiðuvíkurmálið og gert að engu þá réttlætingu sem bæturnar áttu að tákna fyrir samfélagið og fórnarlömbin. Gamli hugsunarhátturinn blívur.

Ég held að nú sé komið tilefni til að íslenskir þingmenn og ráðherrar breyti um hugsunarhátt. Nú er lag að setja réttláta bótalöggjöf og byrja á þolendum Breiðuvíkurmálsins. Þetta er fólk sem á skilið alvöru bætur og ríkisvaldið hefur svo sannarlega efni á að koma almennilega fram við það.


Ritskoðun - staðfesting á veikleika

Sorglegt að íslendingar skuli ekki geta höndlað jafn einfalt mál og ísbjarnarheimsókn með allt uppi á borðinu. Myndu Grænlendingar fara í ritskoðunarham ef ísbjörn mætti örlögum sínum þar sem blaðamenn væru nærri?

Ritskoðun er staðfesting á veikleika. Yfirvöld sem geta ekki höndlað sannleikan freistast til að nota ritskoðun, segja ósatt um atburði, eða nota fréttabann til að breiða yfir eigin klúður og vanmætti. Sovétblokkin gamla, ríkisstjórnir vanþróaðra landa og einræðisríki eru dæmi um slík vinnubrögð. Nú vill BÍ meina að Ísland sé í þeim hópi.

Ef ritskoðun er merki um veikleika, hver er þá veikleikinn hér? Er það brothætt ímynd Íslands gagnvart umheiminum? Kannski erum við ennþá með "mea culpa syndrome" útaf hvarskurðarmyndum í heimspressunni í denn? Er ferðamannaiðnaðurinn í hættu? Eða útflutningur á lambakjöti?

Ég held að íslenskan sé eina tungumálið þar sem "landkynning" er orðabókarheiti.  

 

 

 


mbl.is Blaðamannafélagið ítrekar mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

lögregluofbeldi - 10/11 myndbandið

Sorglegt að sjá svona framkomu hjá lögreglumanni eins og við höfum orðið vitni að á myndbandi á utube og víðar. Ef einhver annar en lögreglumaður hefði ráðist á þennan unga mann - eftir stuttan orðastað eins og þetta myndband sýnir - þá væri sá "sekur" um líkamsárás.

Það er greinilegt að inntökuskilyrði lögreglunnar þurfa endurskoðunar við. Lögreglan þarf að búa yfir vissri sjálfsgagnrýni. Ef myndbandið hefði ekki sýnt hvað gerðist þá hefði kannski "samtrygging lögreglunnar" séð um að "hreinsa" viðkomandi lögreglumann af öllum ásökunum.

Já, það er vissulega leitt að þurfa að viðurkenna að lögreglumenn eru mannlegir og gera mistök - og þá þarf öll stéttin að gjalda fyrir.

Sumir hafa spurt hvort þetta myndband sýni eðli lögreglunnar og sanni að lögreglumönnum sé ekki treystandi fyrir Taser byssum. Góð spurning. Hér í Bandaríkjunum er fleyg setning; "guns don´t kill. people do."

Þjálfun lögreglumanna og opin samskipti við almenning eru frumskilyrði þess að almenningur treysti þeim til að sinna starfi sínu. Sorglegt að sjá svona vinnubrögð eins og þetta 10/11 mál. Vonandi verður það tilefni til að lögregluyfirvöld beini athygli að sálarlífi lögreglumanna svo þetta endurtaki sig ekki.

jas


ég heiti Jón og ég er olíuneytandi...

 

Já, ef George Bush hefur einhverntímann sagt eitthvað af vit þá var það þegar hann fullyrti að þjóðfélagið væri háð olíu. Vel sagt. En eflaust var hann bara að vitna í einhvern annan... 

Maður veltir stundum fyrir sér hvort maður sé leiksoppur menningarinnar eða hvort maður hafi eitthvað val um lífstíl og þar með talið orkuneyslu. Ég er að skrifa þetta blogg á tölvu knúna með raforku sem unnin er úr bandarískum kolanámum - tölvan er framleidd með hjálp olíuorku og úr efnum sem unnin olíu að miklu leiti. Plast er víst pjúra olía, skilst mér. Olía og kol nánast eini orkuvalkosturinn í aldaraðir hér i USA.

Ein kenning sem ég hef heyrt en ekki sannreynt er að bílaframleiðendur hér í USA hafi keypt upp hlutafé járbrautarfélaga til að tryggja að þau fengju ekki að vaxa og verða samkeppnisaðilar um samgöngur. Önnur þeóría er að svokallaðir "lobby-istar" hér vestra hafi borið fé á stjórnmálamenn sem voru tilbúnir að greða atkvæði gegn ríkisfjármögnun á orkurannsóknum,  kostum sólarorku, vindorku, sjávarfallaorku, kjarnorku, o.s.frv. "Sakavottorð" Bandaríkjanna þegar kemur að umhverfismálum ber vitni um hagsmunavörslu skammtímahagsmuna og algjört sinnuleysi fyrir umhverfinu og heilsu þeirra sem búa í miðri menguninni.

Kannski er ég bara í vondu skapi og sé ekki skóginn fyrir olíutunnunum. Kannski er "glóbal vorming" bara áróður græninga og hitabreytingar á jörðinni innan eðlilegra sveiflumarka.

Nú fer ég niðrá Hollywood og Vine og kaupi olíu af næsta díler.

Ég heiti Jón og ég er háður olíu...

jas 

 


mbl.is Olíuverð hækkar á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

samskiptaþörf heimsbyggðarinnar

Stundum finnst manni að heimurinn breytist alltof hægt og þegar hann breytist þá er það til hins verra.

Jæja, - ég var að finna statistík um gemsanotkun mannkynsins. Það eru hvorki meira né minna en 3.3 milljarðar gemsa í notkun í heiminum. Hvað segir það um samskiptaþörf mannskepnunar?  Hvað gerðu menn áður en gemsinn var fundinn upp?

 Nú stendur til að byrja með gsm þjónustu á Kúbu. Skyldu Kúbubúar verða mælanlega hamingjusamari eftir þau vatnaskil eða er hægt að lifa hamingjusömu lífi án farsíma?

Gera allar þessar uppfinningar (sem eiga að gera okkur lífið auðveldara) okkur lífið auðveldara?

Nú verð ég að hætta að skrifa. Gemsinn minn hringir....

jas 


innflutt mafía, innflutt vandamál

Svona "verndargreiðslur" eru aðferð glæpamanna um allan heim til að hafa tekjur af heiðarlegu vinnandi fólki - og það skondna er að "verndin" sem verið er að kaupa er gegn sjálfum glæponunum. Þetta verndarsölumál er ekki það fyrsta og ekki það síðasta á Íslandi en vonandi verður þetta mál til þess að eitthvað verði gert í málinu.

Það eru nefnilega alls ekki slæm "starfsskilyrði" fyrir erlenda atvinnuglæpamenn á Íslandi ef þeir þekkja "markaðinn" vel. Lögreglan þarf að hafa túlk með við rannsókn mála þar sem útlendingar eru gerendur, þolendur og vitni. Útlendingar koma og fara og nöfn þeirra (eða gælunöfn) eru ekki þekkt hjá lögreglunni og að afla upplýsinga tekur tíma og kostar peninga.

Tugumálaerfiðleikar og þekkingarleysi á íslensku réttarfari verða oft til þess að fórnarlömbin þjást í hljóði frekar en að leita réttar síns. Þess vegna þrífst glæpastarfsemi betur meðal gestasamfélaga fyrstu kynslóðar innflytjenda og nærtæk dæmi eru norðurlöndin. Við getum lært margt frá Noregi, Svíþjóð og Danmörku til að gera lífið auðveldara fyrir okkar erlendu gesti. 

Viðurlög á Íslandi eru mun vægari en í heimalandi "verndarsölumanna" og þeir vita að réttarkerfið hér er seinvirkt, mörgum kærumálum er vísað frá eða þau hreinlega ekki rannsökuð til hlítar útaf fjárskorti eða öðrum "mikilvægari" lögreglumálum. Það hvetur þessa verndarsölumenn til dáða.

Dæmdir glæpamenn á Íslandi hafa það nokkuð gott miðað við önnur lönd. Þetta vita útlendingar sem hafa gert glæpastarfsemi að karríer og þeir hafa ekkert á móti því að vera sendir á heilsuhælið Litla Hraun í nokkra mánuði. Ef erlendir atvinnuglæpamenn vissu að þeir ættu vísa fangelsisvist í sínu heimalandi eftir dóm á Íslandi þá myndu þeir kannski finna sér önnur verndarsvæði til gjaldheimtu en Breiðholtið.

Íslensk stjórnvöld eiga að gera samninga við lönd eins og Pólland og Litháen að þarlend stjórnvöld visti sitt fólk því Litla Hraun er eins og heilsuhæli miðað við fangelsi í austur evrópu. Það kostar mun minna að kaupa "gistingu" fyrir viðkomandi í eigin heimalandi en íslenskt fangauppihald og umsýslu.

Manni finnst leitt að lesa svona fréttir því pólverjar á Íslandi eru gegnumsneitt heiðarlegt og vinnusamt fólk. Slæmt að nokkur eitruð epli eins og þessir "verndarar" skuli með hátterni sínu koma óorði á fórnarlömbin. 

 

 

 


Matador spilið búið?

Íslenskt efnahagslíf undanfarið hefur minnt meira á teningaspilið Matador heldur en ábyrga fjármálamenn í viðskiptum með hlutafé og fasteignir. Nú er eins og vindhviða hafi feykt spilapningunum og eignakubbunum til og enginn viti hvað eigi til bragðs að taka.

Ef t.d. bandaríkst efnahagslíf eða alvöru verðbréfamarkaðir úti í hinum stóra heimi hefðu fallið um annað eins og gerðist á Íslandi þá væri skollin á heimskreppa og rúmlega það. Ég held verri kreppa en elstu menn muna, verri en vol strít 1930.

Svo segir seðlabankastjóri að menn eigi að fara varlega. Er það ekki nokkuð seint í rass gripið?


mbl.is Miklir óvissutímar framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Semsagt, hálf-stolnar fjaðrir...

Það er vitað mál að höfundaréttur á Íslandi er á barnsskónum miðað við hinn siðmenntaða heim. Menn veigra sér við að leggja mál fyrir dómstóla því nánast hvert einasta deilumál um höfundarétt er prófmál. En með þessum dómi sýnist mér að erlend hugtök eins og "chain of title" og "derivative works" séu orðin marktækari en fyrr - og dómurinn nú sé lagalegt fordæmi um hvað má og hvað má ekki. 

Þessi tilvitnun í Guðnýju vakti athygli mína: "Hún segir málið ekki hafa snúist um fébætur, heldur hversu langt megi ganga í höfundarrétt annarra. „Það er ekki hægt að stela tónlist, kvikmyndum eða ganga í skáldsögur annarra, breyta texta þeirra örlítið og gera þær að sínum," segir Guðný."

Mikið vildi ég óska þess að þessi dómur þýði vatnaskil í höfundarétti. Ástæðan er sú að eitt svipað höfundaréttarmál stendur mér nær:

Ég og Jón Marinósson teiknuðum íslenskt stafróf á sínum tíma og ljáðum Bergljótu Arnalds í sögu hennar Stafakarlarnir og á margmiðlunardisk líka. Svo þegar höfundarlaun og annað var ekki talið fram, og útgáfufyrirtæki hennar Virago gaf höfundarlaun okkar í afslátt af viðskiptakröfum, og höfundamerkti okkur ekki verkið, og fleira í þeim dúr - þá vildi ég ekki að Bergljót gæfi út okkar myndefni framar. (ég tek fram að allt sem stendur hér að ofan er staðfest með dómum héraðsdóms Rvk.) Ég fór í mál útaf sumum (meintum) brotum útgefanda míns en öðrum málum stefndi ég ekki. Ástæðan var íslensk höfundarlög. Ég bý í USA og sé glögglega hversu höfundaverndin er sterk þar en veik á Íslandi. Ég hefði miklu frekar vilja sækja þetta Stafakarla-höfundaréttarmál í USA eða EB-löndunum en á Íslandi.

Nýverið byrjaði nýr kapituli í höfundaréttarslag um Stafakarlana. Bergljót fékk franskan teiknara til að kópíera myndefni okkar Jóns, þ.e. karakterana og allt heila klabbið, og myndskreyta Stafakarlabókina á nýjan leik.  JPV gaf út án þess að blikka auga eða leiða hugann að "chain of title" eða "derivative works" eða hvernig verkið varð til (þ.e. höfundarétturinn).  Nú er kominn fordæmisdómur svo kannski ég fari að hugsa minn gang. Ég hef mótmælt þessu "copy & paste" vinnubrögðum á mínu myndefni en JPV og Bergljót gefa lítið út á það.

Íslenskur höfundaréttur er 30 ára gömul dönsk samsuða með síðari tíma plástrum og kominn tími til að breyta þeim til nútímans. Minnugur þess að flest framfaraspor í íslensku réttarfari hafa orðið fyrir þrýsting frá Evrópusambandinu þá leyfi ég mér að fullyrða að ef evrópskur bótaréttur væri einhver mælikvarði á Íslandi þá hefðu fébætur fyrir að "stela frá nóbelskáldinu" orðið umtalsverð upphæð.

En ég er vægast sagt himinlifandi yfir að Guðný Halldórsdóttir vann þetta mál.


mbl.is Höfundarréttur tekinn alvarlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvískinnungur eða barnaskapur

Í þessari Bretlandsfrétt segir að fólk sé flutt nauðugt úr landi. Við íslendingar sendum fólk til síns heima líka og það er sent "nauðugt" og enginn úthrópar það mannréttindabrot eða einkenni lögregluríkis. Er þetta merki um tvískinnung eða er til einhver stigsmunur á að vera sendur "nauðugur" úr landi?

Áður en menn fara að æsa sig útaf þessu Erlu Óskarmáli þá væri góð hugmynd fyrir fréttamenn að fá statistík um hversu marga útlendingaeftirlitið og lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli sendir heim og hvort viðkomandi séu nokkru sinni settir í handjárn eða lokaðir inni í klefe, etc. 

Í þessari bresku frétt segir: „Á síðasta ári fluttum við fleiri einstaklinga nauðuga úr landi en nokkru sinni fyrr. Við hikum ekki við að senda fólk nauðugt heim en þegar við getum sparað breskum þegnum eina og hálfa milljón á einstakling, þá gerum við það,” segir talsmaðurinn.

Kannski skiptir máli að það voru ekki íslendingar sendir nauðugir heim frá Bretlandi?

Vill ekki einhver stíga fram og ásaka bretana um sömu fólskulegheit og landamæraverðirna á JFK ?


 


mbl.is Greitt fyrir að snúa heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða "fréttir" er hægt að selja umheiminum?

Íslensk blogg og fréttaflutningur af mál Erlu Óskar hefur fókusað á slæmsku bandaríkjamanna. Nú er þetta orðið að heimsfrétt - en ef umfjöllunin er á sama plani og hér heima þá er ýmsu ábótavant. 

Það er eins og fólki sé sama um staðreyndir málsins: konan braut bandarísk lög, ekki einu sinni, heldur tvisvar og var svo tekin í þriðja brotinu. Fyrsta brotið var að vera of lengi í landinu. Næsta brot var að koma aftur til landsins í óleyfi. Í þriðja skiptið (núna) reynir hún að brjóta sömu lög aftur með tilvísun til þess að hún slapp í gegn síðast. Upp komst og hún var send heim og það er í sjálfu sér ekki fréttnæmt. Fólk sem brýtur af sér er sett í gæslu. Sumir eru handjárnaðir. Þannig er meðferð fanga líka á Íslandi. 

En sé "fréttin" um "meðferðina" sett í réttar pakkningar þá er hún enn eitt dæmið um hversu slæmir bandaríkjamenn eru. Slæmar fréttir eru góð söluvara. 

Val fjölmiðla á fréttaefni almennt er reyndar önnur saga. Fær fallegt fólk meiri og hliðhollari fréttaumfjöllun en við hin? Hér er eitt dæmi til umhugsunar:

Ung bandarísk kona, Natalie Holloway, hvarf sporlaust á ferðamannaeyju í Karabíska hafinu. Fjölmiðlar hafa fjallað um hvarfið linnulaust í tvö ár. En á síðasta ári hurfu tuttugu bandarískar ungar konur sporlaust (dökkhærðar með spönsk nöfn) á landamærum BNA og Mexikó. Það er talið að þeim hafi verið rænt, sumar drepnar, aðrar gefnar eiturlyfjakóngum sem "gjöf", fæstar hafa fundist - en fjölmiðlar þegja um þessa bandarísku þegna sem hurfu í heimabæ sínum eða í skemmtiferð til Mexíkó. Kannski er hér komið enn eitt dæmið um slæmsku bandaríkjamanna að fjalla ekki um þessi mannshvörf??

Ég veit ekki hvort þessi samanburður á við í þessu samhengi eða af hverju sumar fréttir eru lífseigari en aðrar. En kannski sakar ekki að pæla aðeins í þessu útfrá þeim sjónarhóli...


mbl.is Mál Erlu Óskar vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband