15.1.2009 | 09:34
Orðið "stjórnvöld" er öfugnefni
Það er sama hvar borið er niður, alltaf er sama vandamálið. Stjórnvöld annað hvort aðhafast ekkert, skilja ekkert, hafa ekki neitt með vandamálið að gera, eða... (listinn er endalaus)
Þessi setning í fréttinni um aðgerðaleysi stjórnvalda er svo vel orðuð að hana mætti "peista" inn í nánast hverja einustu frétt um íslenskt efnahagslíf: Það er erfitt nú um miðjan janúar að viðurkenna að ráðamenn hafa ekkert gert til að leysa vanda fyrirtækjanna.
Er þetta eitthvað nýtt eða hefur þetta kannski alltaf verið svona? Það er jú þekkt lögmál í bírókratísku stjórnskipulagi að ef embættismaður tekur enga ákvörðun þá er ekki hægt að álasa viðkomandi fyrir að taka ranga ákvörðun. Sé tekin einhver ákvörðun, þá er komin viðmiðun hvort viðkomandi sé hæfur í starfi. Ábyrgð fylgir ákvarðanatöku. Þess vegna er best að taka enga ákvörðun. Þannig hækka þeir frekar í tign sem aldrei taka ákvarðanir. Þeirra rekkord er klín.
Það sjaldan að einhver bendir á að skortur á ákvarðanatöku sé upphaf stjórnsýsluvanda þá má alltaf benda á einhvern annan sem hefði átt að taka ákvörðunina. Þegar sá aðili er skammaður, rekinn eða fær ekki stöðuhækkun þá eru líkur á að maður sjálfur hækki í tign. Lögmálið er pottþétt og getur ekki feilað.
Spurðu bara Geir Haarde ef þú trúir mér ekki.
![]() |
Neita að tryggja Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.1.2009 | 23:34
Spara aurinn, kasta mannauðnum
Þegar grundvöllur tilverunnar breytist snöggt koma upp allskonar spurningar hjá fólki sem áður bara lifði lífinu frá degi til dags. Þegar bankahrunið varð fylltust gjörgæsludeildir spítalanna af fólki sem þurfti áfallahjálp. Hvort sem breytingarnar verða á einni nóttu eða einu misseri þá þarf fólk hjálp. Það er óskiljanlegt að yfirvöld skulu ekki sjá að það þarf að auka fjármagn til heilsugeirans en ekki skera niður. Hvaða bírókrata-snillingur fékk þá hugmynd að hér ætti að spara?
Breyttur hagur til hins verra getur breytt sjálfsmynd manna - sektarkennd, reiði, uppgjöf, þunglyndi, allt eru þetta eðlilegar tilfinningar sem fólk þarf að vinna úr. Stundum er núverandi starf, eignir, æfistarfið eða framtíðaráætlanir okkar ramminn utanum sjálfið.
Hvað ef sjálfsmynd manns/konu er nátengt veraldlegum eigum og svo eru eignirnar teknar? Værir þú sem þetta lest minni maður ef bankinn tæki húsið þitt og bílinn þinn og kannski fyrirtækið þitt líka - og allir vissu af því? Væri eitt af þessu nóg til að þú endurskoðaðir sjálfsmynd þina og mun þér þá líka það sem þú sérð? Ég hef verið að skoða þessi atriði varðandi sjálfan mig og þó hef ég ekki mikið undir í þessu fjármálafári.
Sparnaður nú í geðheilbrigðisgeiranum á eftir að kosta margfalt meira seinna - síðast en ekki síst hjá öllum börnunum sem upplifa ráðleysi og örvæntingu foreldra sinna.
Já, ég veit að ég mála svarta mynd en...
![]() |
Mótmæla breytingum harðlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.1.2009 kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.1.2009 | 01:43
Lausn vandans er einföld
Palestínuvandamáiið er flókið en lausnin er einföld. Þjóðin þarf að vera frjáls, sjálfstæð og jafningi annarra þjóða á alþjóðavettvangi. (Þá væri þetta sem nú er aðgerast "stríð" en ekki Ísraelsk hernaðaraðgerð gegn hryðjuverkamönnum og nánast innanlandsvandamál) Alþjóðasamfélagið verður að draga af sér slyðruorðið og taka yfir landamæravörslu og lögregluvald á Gaza meðan verið er að koma á friði bæði innan Palestínusvæða og við nágranann Ísrael. Þá fyrst geta milljónir Palestínumanna sem búa í flóttamannabúðum snúið heim. Gaza er bara áminning um sundraða og landlausa þjóð.
Friðarferli er að mínu mati ekki mögulegt nema með utanaðkomandi valdboði, t.d. frá SÞ (sem að mínu mati er tannlaus brauðrisi) sem er því miður ófær um svona aðgerð - getur bara sett plástur á meiddið en ekki læknað sjúkdóma. Báðir deiluaðilar eru fastir í hringrás hefndarvíga og tortryggni. Áratuga voðaverk á báða bóga hafa gert þá óhæfa til að sjá málstað hvors annars eða finna flöt á sameiginlegu existens.
Samlíkingin við "lokalausn" nasista á "Gyðingavandamálinu" er orðin eins og spegilmynd af hvernig Ísraelsmenn virðast ætla að "leysa Palestínuvandamálið". Palestínumenn á Gaza og gyðingar í gettóinu í Varsjá með nasistana við gaddavírsgirðingarnar er óþægilega lík mynd.
![]() |
Vill rannsókn á árásunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.1.2009 | 10:44
skilgreining á terrorista
Skilgreiningin á hryðjuverki er órökrétt þegar hún á ekki við verknaðinn heldur miðast við atvinnuveitanda gerandans - þ.e. hvor ríkisrekin her hafi farmið verknaðinn eða baráttusamtök án ríkisfangs.
Tökum dæmi: Hermaður í þjónustu sjálfstæðs ríkis sem sprengir upp hús með óbreyttum borgurum er ekki talinn hryðjuverkamaður heldur stríðsglæpamaður í versta falli - en ríkisfangslaus hermaður (þ.e. skæruliði, liðsmaður í mótspyrnuhreyfingu, etc) sem berst gegn ríkisreknum her telst hryðjuverkamaður fyrir sama ódæðið. Það er ekki verknaðurinn heldur bakhjarlinn sem ákvarðar hvort drápið sé "siðferðilega rétt". Menn þurfa semsagt fagskírteini frá ríkisstjórn til að drepa hvorn annan svo það sé heimsbyggðinni velþóknanlegt.
Nú er Palestína ekki með ríkisrekinn her. Allir sem berjast fyrir Palestínu með vopnavaldi eru því hryðjuverkamenn samkvæmt skilgreiningunni. Þeir sem berjast fyrir Ísrael eru það ekki. Ef herskáir Palestínumenn hefðu smalað Ísraelskum konum og börnum inn í hús og sprengt það í loft upp þá væru allir sammála að það væri hryðjuverk. Hvað segir alfræðibókin þegar hermenn Ísraels smala konum og börnum inn í hús og sprengja það svo í loft upp? Bíðum og sjáum hvað fjölmiðlar segja og líka hversu fljótt menn gleyma...
Getur verið að stjórnmálamenn hafi fundið upp orðið "terroristi" sem réttlætingarstimpil til að útrýma óvinum sem erfitt er að skilgreina af því yfirvald þeirra er ekki þjóðhöfðingi eða ríkisstjórn?
Í þessu siðlausa stríði milli Ísraels og herskárra Palestínumanna er hvorugur aðilinn með "réttlátan" málstað. Hatrið er blint. Enginn er að leita að varanlegri lausn heldur útrýmingu óvinarins sama hvað það kostar. Báðir stunda hryðjuverkastarfsemi og áróðursvélin malar og malar...
jas
PS. Það er sáralítill munur á vopnaðri baráttu fyrir sjálfstæði þjóðar eða terrorisma. Stofnun Ísraelsríkis var blóði drifin og mörg voðaverk unnin sem samkvæmt skilgreiningu dagsins í dag væru hryðjuverk. Sama má segja um sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjanna og voðaverk framin gegn bretum og þeim bandaríkjamönnum sem studdu bresk yfirráð. Í dag eru gerendurnir kallaðir "freedom fighters" en ekki "terroristar". Þegar sigurvegarinn skrifar mannkynssöguna þá breytist ýmislegt.
![]() |
Sprengdu hús fullt af fólki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.1.2009 | 17:59
Dýr væri Hafliði allur
Bandaríska kerfið er byggt þannig upp að það er eitthvað í húfi fyrir þig ef þú brýtur á náunga þínum. Þú þarft að borga og þess vegna passar þú þig. Þetta er af hinu góða.
Á Íslandi er þetta þveröfug enda bæturnar alltaf smáaurar. Ef þú slasast, hlýtur örorku, eða þaðan af verra - hvað eru bæturnar? Formúlan er flókin. Spyrjum tryggingafélögin því þau voru "kjölfestu hagsmunaaðilinn" sem samþykkti lögin áður en alþingi samþykkti þau í denn. Já, greiðendur bótanna smíðuðu lögin, skv blaðafréttum á þeim tíma. Týpískt íslenskt framsóknarhugarfar - tryggingafélögin þurftu jú að borga ef til kæmi. Lögin höfðu áhrif á rekstrarafkomu þeirra. Fullkomlega eðlilegt að þau kæmu að málinu.
Ég fullyrði að Ísland er með lægstu bætur í samanburði við EU og BNA þó ég hafi ekki kannað það sérstaklega til að hafa tölur a hraðbergi. En málið á sér annan flöt sem hindrar möguleika fólks til að leita réttar síns. Ef það er brotið á þér og þú ferð í mál þá þarft þú sjálfur að leggja út lögfræðikostnað og ef þú vinnur málið þá er ólíklegt að rétturinn dæmi þér raunveruleg lögfræðiútgjöld - burtséð frá sjálfum bótunum. Lögfræðikostnaður á Íslandi er hár. Það gæti t.d. kostað þig milljón í lögfræðikostnað að sækja hálfa milljón í bætur.
Semsagt, áhættan er öll þín megin og af því bæturnar eru svo lágar og fyrst bótalöggjöfin er skrípó þá vill enginn lögmaður taka að sér mál nema fá greitt fyrirfram. Í BNA taka þeir áhættuna með fórnarlambinu. Það er enn ein ástæða fyrir stórfyrirtæki að passa sig og brjóta ekki á litla manninum.
Semsagt, á Íslandi verndar kerfið þann sem brýtur á náunganum. Sorgleg staðreynd, en þetta er nú svona samt.
![]() |
25 milljónir í bætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.1.2009 | 02:15
Bæði erfðastríð og trúarbragðastríð
Þetta sem er að gerast á Gaza nú er bara ein orusta en stríðið á upphaf sitt á tímum gamla testamentisins. Núverandi ástand er afleiðing þess að gömlu nýlenduveldin og heimsbyggðin öll fengu samviskubit eftir helför nasista. Það varð að finna lausn á "gyðingavandamálinu" sem varð til þess að Ísraelsríki var stofnað - og þar byrjaði nýr kafli í stríði Kains og Abels, sem er athyglisverð kenning og ég hef ekki hundsvit á því hvort hún sé algjört bull eða lausn lífsgátunnar. En þeir sem aðhyllast þessa kenningu halda því fram að þetta erfðastríð leiði á endanum til "Armageddon".
And we think we've got problems...
![]() |
Æfðu innrásina í átján mánuði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.12.2008 | 17:53
Hvað er í gangi??
Það er regin munur á mótmælum og skrílslátum. Svona uppákoma er "mótmælendum" til skammar.
Á vefsíðu Wall Street Journal er þessi stikla um bankahrunið og viðbrögð fólks fram að þessu Kryddsíldarfári.
http://www.marketwatch.com/video/asset/how-iceland-collapsed/F7F0A5B0-EF8C-425C-96D0-6579D5955AFD
Hingað til hefur umfjöllun verið blessunarlega laus við fréttir af skrílslátum og ofbeldi. Nú er komið nýtt fréttaefni fyrir heimsbyggðina.
![]() |
Mótmælin áttu að vera friðsamleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.12.2008 | 17:46
týpísk viðbrögð rannsóknarlögreglu - "bjargaðu þér sjálfur!"
Mig undrar ekki að lögreglan nenni ekki að rannsaka hvítflipaglæpi. Þeir hafa hvorki starfsfólk, kunnáttu né metnað til þess arna. Íslenska efnahagslögreglan er með lélegasta "trakk rekkord" í heimi (nema ske kynni að 3ja heims ríki slái þeim við) og besta aðferð þeirra til að fela eigin vangetu er að hafna málum.
Ef einhver stelur peningum með svikum og prettum (sem sagt þjófnaður sem krefst þess að löggan þarf að hugsa og skilja) þá eru viðbrögðin önnur en ef einhver stelur peningum með því að brjótast inn. Innbrot með tilheyrandi eyðileggingarslóð er eitthvað sem löggan á Íslandi skilur. Sorglegt að glæpir og spilling skuli þrífast á Íslandi útaf vanhæfri lögreglu og vanhæfu ákæruvaldi.
En lögreglunni til málsbóta má segja að þeir hafa ekki haft það fjármagn sem þarf til að sinna öllu sem kemur inn á borð til þeirra. Eina ráðið í vanmættiinum er að segja nei. Meira fjármagn gæfi tækifæri til mannaráðninga og vissulega þarf lögreglan á meiri sérfræðiþekkingu að halda. En af því yfirmenn lögreglunnar eru skipaðir af ráðherra en ekki kosnir beinni kosningu þá veigra þeir sér við að krefjast neins. Síðast þegar lögreglustjóri (Jóhann Ben í Keflavík) krafðist einhvers (þ.e. rekstrarfé svo embættið gæti fúnkerað) þá ákvað ráðherra að breyta "skipulaginu" og við vitum hvernig það fór.
Það þarf nýja hugsun að baki lögreglumálum á Íslandi. Nú er tækifærið. Þó ég þekki ekki alla þætti FS-13 málsins þá lítur það út eins og lögreglumál - allsstaðar nema á Íslandi.
![]() |
Yfirlýsing frá Róberti Melax vegna FS-13 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.11.2008 | 09:10
Ókei, - en bara ekki fresta brottförinni líka!
Hér í fyrndinni var okkur öllum ljóst að Davíð væri einn af landsfeðrum. Hann var á stalli með Bjarna Ben og Sveini Björnssyni, svei mér þá. Þó Davíð væri umdeildur það var framlag hans í stjórnmálum óumdeilt.
Síðan gerðist það að honum var hleypt á beit í hvíldarhaga pólitískra stóðhesta - Seðlabankanum. Þar urðu kaflaskipti í lífshlaupi Davíðs og reyndar allrar þjóðarinnar. (Einhver gáfumaðurinn útskýrði öðrum mönnum betur af hverju fagmenn í fjármálum eru ekki ráðnir í stöðu Seðlabankastjóra. Skýringin er þessi; ef einhver sprenglærður hagfræðingur sækist eftir starfinu á grundvelli menntunar og reynslu, þá er það dæmi um hversu veruleikafirrtur viðkomandi sé - og þar er jafnframt kominn helsta ástæðan til að synja honum starfinu. En ef þú ert aftur á móti með bændaskólamenntun og góðgildur framsóknarmaður þá ertu gjaldgengur og rúmlega það...)
En nú villtist ég aðeins frá aðal umræðuefni dagsins.
Ég ætlaði bara að segja þetta: Mannkynssagan er full af dæmum um hvernig rangur maður á röngum stað á röngum tíma olli ómældum skaða. Kannski ekki viljandi (the road to hell is paved with good intentions, segir máltækið) Mér dettur í hug frægir menn eins og Neville Chamberlain og George W. Bush og fleiri.
Skítt með þó Davið fresti komu sinni á fundi. Það er ekki eins alvarlegt eins og að fresta brottför hans úr embætti Seðlabankastjóra.
![]() |
Davíð frestar komu sinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.11.2008 | 22:08
skýr skilaboð segir Ingibjörg? Ekki þó til okkar?
Er Ingibjörg að halda því fram að þjóðin hafi nú loksins fengið að vita allan sannleikann?
Ég held að ríkisstjórn Geirs skilji ekki að þetta IceSave/IMF mál er ekki einhver bírókratasamningur um veiðiheimildir. Þeir eru að semja um framtíð þjóðarinnar og kjósa að gera það með leynimakki og villu upplýsingaveitu til umbjóðenda sinna - þ.e. þjóðarinnar? Af hverju? Og þegar við mótmælum sundurrotnum aðdraganda núverandi ástands og ráðaleysinu í kjölfarið þá kemur upp fyrirlitningartónn í forsætisráðherra og hann segir sem svo; "já, já, þeir mega svo sem mótmæla...." (umorðun, en þetta eru skilaboðin)
Treystum við þessari ríkisstjórn í þeim ólgusjó sem framundan er? Skoðum stöðuna: Þetta IceSave mál er bara einn fyrsti kapítullinn í langri sögu. Það eiga fleiri mál eftir að koma upp á yfirborðið sem kalla á afskipti stjórnvalda: Ríkisábyrgðir, Lífeyrissjóðsmál, Seðlabankamál, Fjármálamisferli einstaklinga og stofnana, hlutabréfakaup stjórnmálamanna í einkavæðingarferlinu, komandi stöðuveitingar og svo fjárveitingar til rannsóknaraðila (því nóg verður til að rannsaka), samspil íslenskra laga og EES samningsins (sem IceSave málið tapaðist á), gengismál og leikaraskapur bankanna með gengi krónunnar fyrir ársfjórðungsuppgjör (hvað segir EES samn um það, og ráða þá íslensk lög eða?).
Listinn er endalaus því við erum bara rétt búin að sjá yfirborðið.
Ef Geir og kó verða við sjórnvölinn, munu þeir halda áfram að segja þjóðinni ósatt og gera lítið úr okkur sem höfum áhyggjur af ástandinu?
![]() |
Skilaboðin voru skýr |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)